140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

framhald umræðu um 209. mál.

[15:36]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég spyr að gefnu tilefni um það hvernig standi á því að tiltekin þingsályktunartillaga Gunnars Braga Sveinssonar og fleiri hefur ekki komið hér á dagskrá. Ég var einmitt að athuga þær þingsályktunartillögur og þau frumvörp sem ekki hafa komið hér. Ég tók eftir að þessi var með mjög lágt málsnúmer.

Er það vegna þess að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hafi óskað eftir því að hún yrði ekki tekin á dagskrá? Er það vegna þess að forseti telji hana með einhverjum hætti ekki þingtæka? Eða er það ef til vill vegna þess að forseti treystir sér ekki til þess að reiða fram þær upplýsingar sem spurt var um á fyrra þingi, þegar þessi þingsályktunartillaga var tekin á dagskrá, rædd og umræðu um hana frestað?

Þá var umræðu um hana frestað á því méli að þingmenn kölluðu eftir Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, hæstv. forseta Alþingis, vegna þess að til hennar var vitnað í umræðunum og þeim gögnum sem tínd voru fram þessari þingsályktunartillögu til stuðnings. Það er mjög mikilvægt að þetta komi fram, hver af þessum ástæðum liggur að baki því að þingsályktunartillagan hefur ekki komið hér til umræðu.