140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

verklagsreglur um skilarétt, gjafabréf og inneignarnótur.

503. mál
[15:45]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Lúðvíki Geirssyni fyrir að vekja máls á þessu neytendamáli. Við höfum trúlega flestöll orðið fyrir því eða höfum heyrt af því að réttur neytenda virðist óljós. Því er mikilvægt að Alþingi og framkvæmdarvaldið skýri þessi mál betur vegna þess að upp koma fjölmörg tilvik þar sem reglurnar virðast óljósar eða réttur neytenda er ekki með þeim hætti sem við flest vildum sjá. Við þekkjum það líka af samskiptum neytenda við fjármálastofnanir og huga þarf að því að hugsa hlutina upp á nýtt út frá hagsmunum neytenda hér á landi.

Ég vil því spyrja hæstv. fyrirspyrjanda og jafnframt hæstv. ráðherra, af því að hér var nefnt að rætt hefði verið við Neytendastofu, hvort þeir hefðu rætt málið við talsmann neytenda sem er ötull talsmaður neytenda hér á landi og hefur sýnt það í sínum verkum (Forseti hringir.) að hann hefur haft hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Mér finnst mikilvægt að það embætti sé inni í þessu máli.