140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

fjar- og dreifkennsla.

431. mál
[16:12]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn og um leið ráðherra fyrir svörin. Með fullri virðingu fyrir mörgum þingmönnum tel ég þann fjármálaráðherra sem nú er hafa einna mestu þekkingu á menntamálum vegna meðal annars fyrri starfa hennar í ráðuneytinu sem og í undirstofnunum þess.

Við verðum að horfast í augu við að tekin var pólitísk ákvörðun um að fresta innleiðingu hluta framhaldsskólalaganna. Tekin var pólitísk ákvörðun um það af hálfu núverandi ríkisstjórnar að skerða dreifnámið og fjarnámið. Það þýðir nákvæmlega það sem hv. þm. Eygló Harðardóttir kom inn á, þ.e. takmörkun á aðkomu kvenna, en ekki síður takmörkun á að fara með ákveðnum hætti í að innleiða framhaldsskólalögin. Það þýðir að verið er að stoppa sveigjanleikann milli skólastiga, að minnsta kosti um stundarsakir.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra, ef hún gæti komið að því í seinna svari sínu, hvort hún í ljósi reynslu sinnar innan menntamálaráðuneytisins (Forseti hringir.) haldi ekki þeim skoðunum sínum uppi varðandi fyrirkomulag framhaldsskólastigsins á næstu árum að halda áfram að vinna að sveigjanleika á milli skólastiga og hvort hún haldi ekki áfram að styðja við þær (Forseti hringir.) hugmyndir að gera námið skilvirkara og stytta til dæmis námstíma til stúdentsprófs.