140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

fjar- og dreifkennsla.

431. mál
[16:19]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa góðu umræðu. Hins vegar varð hér hrun — maður þarf að byrja allar ræður sínar á því að minna á það. Þegar þurfti að velja hvar átti að skera niður á framhaldsskólastigi var horft á fjarnámið, í fyrsta lagi út af því að þar var meira brottfall en við annars konar kennslu og einnig var þjónustan í fjarnáminu oft við eldra fólk. En þegar ákveðið var hvað ætti að ganga fyrir í niðurskurðinum á sínum tíma var horft á þjónustu við nemendur á framhaldsskólaaldri. Sama ástæða var uppi vegna þjónustu við grunnskólanemendur, sem að sumu leyti var í gegnum fjarkennslu að öðru leyti sem staðnám. Báðir þessir kostir voru slæmir, en þó var ákveðið að gera þetta tímabundið frekar en að fara bara beint í dagskólakennsluna og skera þar niður.

Þetta er svo sannarlega tímabundin aðgerð vegna þess, eins og hér hefur komið fram, að þróun í fjarkennslu og dreifnámi, og það að finna leiðir til þess að stuðla að sveigjanleika á milli skólastiga, er mjög mikilvæg og við eigum svo sannarlega að leggja áherslu á það og munum gera í framtíðinni.

Ég tek undir það með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að sveigjanleiki milli skólastiga er mjög mikilvægur og stytting námstíma til stúdentsprófs, og reyndar á öðrum námsbrautum líka, stuðlar að bættri samkeppnisstöðu íslenskra nemenda við jafnaldra sína í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Þetta er jafnmikilvægt nú og áður. (Forseti hringir.)

Varðandi námsgögnin verð ég að koma að því síðar.