140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

tollar og vörugjöld.

441. mál
[16:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég ákvað að leggja þessa fyrirspurn fram í ljósi þess að í byrjun ársins var skipt um fjármálaráðherra og nú situr annar í stól fjármálaráðherra en þingmaður frá Vinstri grænum, nú er það Samfylkingin sem vermir þann stól. Samfylkingin hefur fram til þessa haft, alla vega í orði og nú reynir á hvort það sé á borði, ákveðna skoðun varðandi umbyltingu á vöru- og tollaumhverfinu. Nú hefur Samfylkingin tækifæri til að breyta algjörlega úreltu kerfi.

Ég ætla ekki að draga dul á það að ég hefði gjarnan viljað sjá breytingu á þessu umhverfi fyrr, en það hefur smám saman verið að gerast, það hefur verið gert aðeins gegnsærra, það er verið að reyna að stíga ákveðin skref í þágu tolla og vörugjalda, meðal annars á sínum tíma varðandi landbúnaðarsamninginn, varðandi tengsl Íslands og GATT.

En um leið og vinstri stjórn komst til valda, þar á meðal Vinstri grænir, breyttu þeir innflutningi á landbúnaðarvörum, breyttu yfir í svokallaða magntolla úr verðtollum sem þeir voru síðan gerðir afturreka með af hálfu umboðsmanns Alþingis. Nú er hér frumvarp sem hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra mun mæla fyrir. Hann fer bara eins skammt og hann getur gengið.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann taki ekki undir það með mér að endurskoða þurfi allt tolla- og vörugjaldaumhverfið í ljósi þess að neysluhættir og neyslumynstur Íslendinga hefur gjörbreyst, t.d. frá því við gerðum GATT-samninginn árið 1995. Þess má geta í því samhengi að innanlandsneysla á búvörum hefur aukist mikið en þrátt fyrir það helst hlutfall af innfluttum landbúnaðarafurðum við neysluna sem miðað var við 1986–1988.

Við borðum rúmlega fjórum sinnum meira af alifugla- og svínakjöti en við lok 9. áratugarins, sem enn er miðað við. Neysla osta á þessum tíma hefur tvöfaldast. En enn miðum við gamaldags neyslu okkar eða neyslu fyrri tíma hér á landi.

Er hæstv. ráðherra ekki sammála mér í því að þessu umhverfi þurfi að breyta á þann veg að það taki mið af því hvernig Íslendingar dagsins í dag lifa og vilja stjórna heimili sínu og innkaupum?

Ég vil því líka spyrja hæstv. ráðherra Oddnýju Harðardóttur, þingmann Samfylkingarinnar, hvort hún sjái ekki tækifæri í því að taka undir, með mér og ýmsum öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem höfum lagt fram þingsályktunartillögu um að skipuð verði nefnd til að endurskoða vörugjalda- og tollalöggjöf þannig að hún taki mið af því sem nútíminn segir okkur en ekki af neyslu Íslendinga á árunum 1986–1988.

Ég legg því þá spurningu fyrir hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) hvort hún sé ekki reiðubúin til að taka undir með okkur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að fara í að endurskoða þetta umhverfi.