140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

tollar og vörugjöld.

441. mál
[16:24]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi tel ég mikilvægt í þessu sambandi að tollar og vörugjöld séu ekki lögð að jöfnu þegar rætt er um hvort breytinga sé þörf, og mun ég því greina þar á milli í svari mínu.

Í öðru lagi ber, vegna stöðu ríkissjóðs og hruns sumra tekjustofna hans, að fara varlega í breytingar sem áhrif gætu haft á tekjuöflun ríkisins. Ég er ekki að útiloka breytingar, en geld varhuga við snöggsoðnum tillögum, svo sem þeim sem fela í sér lækkanir á vörugjöldum tímabundið, vegna þess að einstaka þingmenn telji sig geta spáð fyrir um þróun markaðarins. Hér er ég að sjálfsögðu að vísa til tillögu um breytingar á vörugjöldum á eldsneyti sem er stærsti tekjupóstur ríkissjóðs í vörugjöldum.

Í þriðja lagi er skynsamlegt að fara sér hægt nú þegar þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópusambandinu nálgast. Þar mun liggja á borðinu samningur sem felur í sér breytingar á ýmsum liðum vörugjalda og tolla sem þjóðin þarf þá að taka afstöðu til.

Varðandi endurskoðun á tollum tel ég rétt að taka fram að tollaumhverfi á Íslandi er á margan hátt sniðið að alþjóðasamningum sem Ísland hefur gert við önnur ríki og ríkjasambönd. Þannig ræðst til dæmis útreikningur á tollverði og tollflokkun að mörgu leyti á því hvaða sjónarmið hafa verið lögð til grundvallar í samningum Alþjóðatollastofnunarinnar um þessi mál.

Ísland er svo aðili að fjöldamörgum fríverslunarsamningum, bæði þeim samningum sem lokið hefur verið á vettvangi EFTA-samstarfsins og þeim samningum sem Ísland hefur lokið tvíhliða. Það segir því sig sjálft að okkur er þrengri stakkur sniðinn til breytinga á þessu sviði en ella.

Það hefur verið stefna stjórnvalda í fjölda ára að fella ekki niður tolla á einstaka vörutegundir nema á grundvelli tvíhliða samninga um gagnkvæmar tollaívilnanir, svo sem eins og raunin verður ef Ísland verður aðili að hinu Evrópska efnahagssvæði. Ég sé enga ástæðu til að bregða frá þeirri stefnu. Þvert á móti tel ég mikilvægara að við leggjum áfram áherslu á gerð fríverslunarsamninga til hagsbóta fyrir íslenska neytendur og aukinn markaðsaðgang erlendis fyrir íslensk framleiðslufyrirtæki.

Hvað varðar almenna vörugjaldið hefur það verið talsvert til skoðunar í fjármálaráðuneytinu, bæði verklag vegna álagningar vörugjalds og samræmi innan kerfisins. Forveri minn í embætti fjármálaráðherra benti á það hér í þessum ræðustól fyrir áramót að heildstæð endurskoðun þyrfti að fara fram á almenna vörugjaldakerfinu. Ég er sammála því og mun í samstarfi við starfsmenn ráðuneytisins beita mér fyrir því að endurskoðunin fari fram eins fljótt og mögulegt er.

Það er ekki eingöngu í ljósi breyttra neysluhátta og umhverfis sem ég tel nauðsynlegt að slík endurskoðun eigi sér stað, heldur líka til þess að bæta samræmi og hagkvæmni í álagningu gjaldsins.

Norðurlandaþjóðirnar leggja vörugjöld á færri vöruflokka en hér tíðkast, og þá aðallega á eldsneyti, en þau gjöld eru nokkuð hærri en hjá okkur eins og þekkt er, og svo matvörur sem taldar eru óhollar. Þannig er ef til vill heppilegast að kerfið virki svo að ríkið sé ekki að neyslustýra nema af augljósri ástæðu.

Ég get því tekið undir með hv. þingmanni þegar hún segir að mikilvægt sé að endurskoða vörugjöldin og sú vinna er þegar hafin. En ég vil leggja áherslu á að það er ekki aðeins vegna breyttra neysluvenja heldur einnig vegna þess ósamræmis sem gildir við álagningu gjaldsins á sumum sviðum.