140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

tollar og vörugjöld.

441. mál
[16:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, en ég var ekki mjög ánægður með þau. Mér heyrist ráðherrann ætla að gera voðalega lítið og hún ber ýmsu við. Jú, það varð hrun, þess vegna er lítið hægt að gera sem kostar peninga. Svo erum við að ganga í Evrópusambandið, þá þurfum við að fresta málum líka. Mér sýnist flest vera tínt til til þess að taka nú ekki á þessu.

Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að gera þarf greinarmun á tollum og vörugjöldum í umræðunni. Vörugjaldafrumskógurinn er þvílíkur að ég efast um að nokkur maður skilji það til fullnustu nema kannski þeir sem vinna við að leggja þetta á, tollverðir og slíkir. En ég vil líka minna á að öll þessi gjöld eru greidd af einhverjum, þ.e. af heimilum landsins. Ef vörugjaldafrumskógurinn væri einfaldaður mundi það létta vinnu af fyrirtækjum og minnka kostnað heimila, það er því ekki þannig að þetta sé einhvern veginn tapað fé.