140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

tollar og vörugjöld.

441. mál
[16:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka ráðherra svörin. Menn fóru í einmitt þessa pólitísku leiki. Það er alveg rétt, það hefði eflaust mátt gera meira á tímum Sjálfstæðisflokksins í fjármálaráðuneytinu, það var ýmislegt gert, meðal annars var tímabundið komið til móts við fjölskyldurnar í landinu þegar bensínverðið var komið upp í heilar 130 kr. Þá voru álögur á bensín lækkaðar tímabundið, með liðsstyrk Framsóknarflokksins, til þess að koma til móts við heimilin í landinu. (Gripið fram í.) Voru heimilin þá betur sett en í dag. Það er dæmi um að menn sýni frumkvæði og reyni að átta sig á hverju nútíminn kallar eftir.

Ég lýsi yfir ánægju minni þegar kemur að því að hæstv. ráðherra gefi svar varðandi endurskoðun á vörugjöldunum. Það er algjörlega nauðsynlegt og menn ætla að gera það óháð því hvað ESB segir í því efni.

Hins vegar verð ég að segja að ég er afar óánægð með að menn ætli sér ekki að endurskoða tollalöggjöfina. Mér finnst það „absúrd“ að menn ætli að bíða með að endurskoða tollalöggjöfina vegna þess að við erum í aðildarviðræðum við ESB. Ég tel að það sé brýnt og mikilvægt að við skoðum neyslu Íslendinga í dag á hinum ýmsu kjöttegundum, hún hefur gjörbreyst frá því sem áður var.

Ég óska eftir því að fjármálaráðuneytið, reglugerðir þess og regluverk verði nútímavætt, verði ekki í þeirri forneskju sem það er nú. Ég bjóst við því að annar tónn yrði sleginn af hálfu Samfylkingar varðandi almennilega endurskoðun á tollum og vörugjöldunum en sá tónn sem gefinn var áðan.

Ég óska því eftir mjög skýru svari af hálfu ráðherra: Er þá ekkert að marka stefnu þeirra samfylkingarþingmanna, sem talað hafa fjálglega um það að endurskoða beri tolla og vörugjöld, þegar þeir eru komnir til valda og hafa tækifærin og tólin til þess að breyta? Er þá ekki raunverulegur vilji (Forseti hringir.) til að breyta lögunum og regluverkinu til að það verði í samræmi við þarfir Íslendinga í dag?