140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

áminningar gagnvart opinberum starfsmönnum.

442. mál
[16:39]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis um mannauðsmál frá því í janúar 2011, sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir minntist á áðan, kemur meðal annars fram að Ríkisendurskoðun telji að breyta þurfi lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og einfalda reglur þeirra um starfslok ríkisstarfsmanna. Þar kemur einnig fram að endurskoða ætti skyldu til að áminna starfsmann og gefa honum kost á að bæta ráð sitt áður en til uppsagnar eða lausnar frá embætti kemur. Einnig kemur fram að það sé mat Ríkisendurskoðunar að stjórnsýslulög tryggi ríkisstarfsmönnum fullnægjandi réttarvernd í starfi.

Vegna ofangreindrar skýrslu Ríkisendurskoðunar var óskað eftir því að skoðað yrði hvernig rétt væri að bregðast við henni auk þess sem skoðað yrði hvort þörf væri talin á öðrum breytingum á lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Sú vinna á sér nú stað innan ráðuneytisins.

Þess skal þó geta að við endurskoðun laganna ber samkvæmt 52. gr. þeirra að hafa samráð við Bandalag háskólamanna, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Kennarasamband Íslands og Alþýðusamband Íslands.

Ríkið sem vinnuveitandi er, eins og aðrir vinnuveitendur, bundið af reglum vinnuréttarins í samskiptum við starfsmenn sína. Jafnframt eru í gildi sérstök lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Að auki er ríkinu svo gert að koma fram við starfsmenn sína eins og þeir væru borgarar þar sem teknar eru ákvarðanir um réttindi og skyldur þeirra eftir ákvæðum stjórnsýslulaga. Samkvæmt því ber ríki sem vinnuveitandi við tvöfalt réttarkerfi þegar kemur að samskiptum þess við starfsmenn sína. Það fyrirkomulag hefur orðið til fyrir atbeina dómstóla og umboðsmanns Alþingis sem komist hafa að þeirri niðurstöðu í ljósi ummæla í greinargerð með stjórnsýslulögum að ákvarðanir til dæmis um upphaf starfs, þ.e. um auglýsingar og ráðningu ríkisstarfsmanna, teljist stjórnvaldsákvarðanir og enn fremur ákvarðanir um starfslok þeirra.

Að baki reglum stjórnsýsluréttarins búa ákveðin réttaröryggissjónarmið. Ekki er augljóst að samskipti ríkisins sem vinnuveitanda við starfsmenn sína eigi að öllu leyti að byggjast á slíkum sjónarmiðum. Ákveðin sérstaða embættismanna kann þó að réttlæta slíkar reglur. Reglur stjórnsýsluréttarins fela í sér flókna málsmeðferð og takmarka um of stjórnunarrétt opinberra vinnuveitenda.

Rökin fyrir því að ríkisstarfsmenn eigi að njóta sérstakrar verndar í starfi eru sérstaklega þau að nauðsynlegt sé að ríkisstarfsmaður geti sinnt starfsskyldum sínum án þess að þurfa að óttast það að valdhafar á hverjum tíma beiti hann þrýstingi, til dæmis með beinum eða óbeinum hótunum um að segja honum upp störfum. Tryggja þurfi að ríkisstarfsmenn verði ekki fórnarlömb geðþóttaákvarðana eða leiksoppar stundarhagsmuna.

Þau rök sem færð hafa verið fyrir réttarvernd ríkisstarfsmanna eiga ekki við um öll störf innan ríkisgeirans. Stærsti hluti starfa hjá ríkinu, til dæmis innan heilbrigðis- og menntakerfanna, er þess eðlis að ekki verður talin hætta á að viðkomandi starfsmenn verði beittir pólitískum þrýstingi í starfi.

Við undirbúning breytinga á réttarreglum um starfsmannamál ríkisins verður í fyrsta lagi að taka ákvörðun um hvort ríkið sem vinnuveitandi skuli áfram búa við tvöfalt kerfi. Með því er átt við hvort undanskilja eigi almennt eða einstakar ákvarðanir í starfsmannamálum reglu um stjórnsýslu- og upplýsingalög og hvort þar eigi að gera greinarmun á ríkisstarfsmönnum sem ráðnir eru með gagnkvæmum uppsagnarfresti og embættismönnum. Í öðru lagi hvort einskorða eigi breytingarnar við ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Virðulegi forseti. Þessi lög eru í skoðun innan ráðuneytisins og þegar komnar verða einhverjar útlínur þar verður kallað til samráðs við BHM, BSRB og ASÍ, því að samkvæmt lögum þarf, eins og ég sagði áðan, samráð við þessi félög ef breyta á starfsmannalögunum.

Vissulega hefur komið fram gagnrýni á þessi lög í langan tíma. Að sumu leyti hafa þau verið íþyngjandi ríkisstarfsmönnum þegar horft er til áminningarferlisins sem oft getur verið erfitt starfsmönnunum sjálfum þó að að sumu leyti sé það ferli vörn fyrir ríkisstarfsmenn.