140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

áminningar gagnvart opinberum starfsmönnum.

442. mál
[16:44]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Það er ástæða til að fagna þessari umræðu. Þingmenn eiga að skipta sér af þessum málum, ekki síst á þeim tímum þegar við þurfum að hagræða í rekstri hins opinbera og ríkisins þar sem skortur er á fjármunum eins og allir þekkja. Sá sem hér stendur hefur aðallega unnið úti á hinum almenna vinnumarkaði þar sem menn eru reknir og ráðnir eftir árangri. Eftir að hafa setið í hv. fjárlaganefnd á Alþingi í þrjú ár er ég stundum gapandi yfir því hvað ríkisvaldinu reynist af einhverjum ástæðum erfitt að segja upp mönnum í efstu stöðum í kerfinu. Ég tel að endurskoða þurfi kerfið hvað varðar réttindi og skyldur opinberra starfsmanna þegar kemur að ráðningum stjórnenda hjá hinu opinbera. Það er mjög erfitt að vinna í þessum málum. Eins og fram kom (Forseti hringir.) í svari við fyrirspurn hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur fyrir nokkru er það með ólíkindum hve fáir hafa í raun fengið áminningu og verið reknir (Forseti hringir.) miðað við það sem gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði.