140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

áminningar gagnvart opinberum starfsmönnum.

442. mál
[16:47]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka ráðherra svörin. Ég verð þó að segja eins og er að þrátt fyrir góða viðleitni gat ég ekki greint pólitískan vilja eða skoðun hæstv. ráðherra á því hvort hún vill raunverulega fara í þá vegferð að breyta því gamla og, að mínu mati, úrelta kerfi sem áminningarferlið er.

Er hæstv. ráðherra tilbúin að ljá máls á því að réttarstaða ríkisstarfsmanna verði jöfnuð við stöðu starfsmanna á hinum almenna vinnumarkaði? Það þarf auðvitað að gæta að ýmsum þáttum, en ég held að ekki sé hægt að líta fram hjá þeim ábendingum sem fram koma í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem hæstv. ráðherra kom inn á í svari sínu, að einfalda þurfi ferlið allt og að stjórnsýslulögin sem slík veiti ríkisstarfsmönnum fullnægjandi vernd í starfi.

En þegar maður horfir síðan upp á þennan ótrúlega vandræðagang sem er innan veggja Fjármálaeftirlitsins renna á mann tvær grímur. Engu að síður verðum við að horfa á málið úr fjarlægð og vonast til þess að þau lög sem gilda haldi þá. Þau sýna þó að mínu mati fram á að þetta er úrelt kerfi sem við búum við og hægt er að byggja upp betra kerfi sem stuðlar að því að við löðum að okkur hæfasta og besta fólkið en um leið að við gætum hagkvæmni og skilvirkni í ríkisrekstri og aðhaldi. Það felst meðal annars í því að forstöðumenn ríkisstofnana átti sig á því að mikil ábyrgð hvílir á herðum þeirra sem forstöðumanna ríkisstofnana og þeir þurfa að standast fjárlög hverju sinni.