140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

álögur á eldsneyti.

482. mál
[17:15]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ef við tökum orð hæstv. fjármálaráðherra trúanleg, að orkuskipti í samgöngum eigi að leysa vanda okkar, verður ríkisstjórnin að leyfa Íslendingum að framleiða þá orku, m.a. með virkjunum sem hefur ekki verið sú stefna sem uppi hefur verið. En það er kannski hins vegar svarið til lengri tíma og ég get tekið undir að það hlýtur að vera það. En til skamms tíma erum við að horfa á það, ef ég skildi hæstv. fjármálaráðherra rétt, að þær tekjur sem koma inn eiga að koma inn af þeim sem þurfa virkilega á því að halda að keyra bíla, bíla sem þurfa að vera fjórhjóladrifnir, en geta ekki nýtt almenningssamgöngur. Ég er með svör frá innanríkisráðherra um ófærð á vegum um allt land sem ég ætla aðeins að koma inn á á eftir.

En þennan vanda þarf að leysa. Hvernig ætlar ríkisstjórnin og hæstv. fjármálaráðherra að tryggja jöfnun flutningskostnaðar? Hvernig ætlar ráðherra að tryggja jafnræði í búsetu á landinu öllu og hvernig á að tryggja stærri atvinnusvæði samkvæmt stefnu (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar, sóknaráætlun 20/20, ef ekki á að taka á eldsneytisverðinu á einhvern hátt á þessu missiri?