140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

álögur á eldsneyti.

482. mál
[17:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þessi umræða er þörf. Þegar ekið er um götur Reykjavíkur tekur maður eftir því að sífellt er auðveldara að komast áfram vegna þess að göturnar eru að tæmast.

Á þingskjali 863 er frumvarp til laga frá hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni og öllum öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins um að lækka tímabundið álögur ríkisins á eldsneytisverð til að skera af þeim kúf sem nú er að myndast í orkuverði, sérstaklega í olíuverði, vegna óróa í Miðausturlöndum og miklum kuldum í Evrópu. Auðvitað kann að vera að eldsneytisverð hækki til langtíma. Auðvitað kann að vera að fara þurfi í orkuskipti umhverfisins vegna en til skamms tíma litið, þegar ferðamannaþjónustan þarf á því að halda í vor, þá er mjög mikilvægt að búið verði að lækka verð á bensíni og olíu til að þetta valdi ekki meiri skaða en þarf. Ég bendi á að tekjur ríkisins hafa minnkað og eru að minnka af þessum skatti.