140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

álögur á eldsneyti.

482. mál
[17:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Það er áhyggjuefni að hlusta á svör hæstv. ráðherra. Það á enn að halda áfram að vera með háar álögur á heimilin og atvinnulífið í landinu samkvæmt svari hæstv. fjármálaráðherra sem titlar sig ráðherra jafnaðarmannaflokks Íslands. Ég endurtek þá spurningu sem kom fram hjá hv. þingmönnum: Hvar er jafnaðarmennskan þegar kemur að fólki meðal annars á landsbyggðinni sem þarf lífsnauðsynlega að nota bifreiðar til að komast á milli staða? Er hæstv. ráðherra ekki sammála mér í því að ef álögur verða lækkaðar mætti gera ráð fyrir að eftirspurn mundi að sama skapi aukast? Með háum álögum minnkar eftirspurnin einfaldlega og þar með minnka tekjur ríkissjóðs. Þetta eru algild sannindi þegar kemur að hagfræði um framboð og eftirspurn. Hæstv. ráðherra verður því að láta af þeirri pólitík sem ríkisstjórnin hefur rekið í um þrjú ár sem miðast við það eitt að hækka gjöld og hækka skatta á almenning og fyrirtæki í landinu. Það er einfaldlega nóg komið af því að menn haldi áfram á þeirri braut.

Ég vil minna á einn vaxtarsprotann sem hin norræna velferðarstjórn nefnir oft, þ.e. ferðaþjónustan. Hversu hátt gjald á ferðaþjónustan að greiða í framtíðinni vegna eldsneytiskaupa? Þar erum við að tala um innanlandsflug, millilandaflug, rútur og leigubíla. Hversu langt á að ganga í gjaldtöku gagnvart þeirri undirstöðuatvinnugrein?

Ég spyr enn og aftur, vegna þess að það eru mannréttindi á landsbyggðinni að fólk geti ferðast á milli staða, hversu langt á að ganga fram í aukinni skattlagningu á fólk og fyrirtæki í landinu? Hvernig getur hæstv. ráðherra sem titlar sig jafnaðarmanneskju réttlætt þessar háu álögur?