140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

virðisaukaskattur á barnaföt.

499. mál
[17:40]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Enn verð ég fyrir vonbrigðum með málflutning hv. þingmanns þó að að mörgu leyti hafi þessi umræða verið gagnleg og skerpt línurnar í þessum efnum og hvar áherslur manna liggja. Það er rétt að virðisaukaskattur er of hár hér. Ég er sammála hv. þingmanni hvað það varðar. Og ég tel líka að það væri betra að við byggjum við einfaldara kerfi og við eina tölu eins og rætt var um síðasta haust. En þar er um langtímaverkefni að ræða og þarf að fara í það þegar aðstæður eru réttar til þess.

Auðvitað er það fullkomlega óábyrgt að fara í ræðustól slag í slag til að leggja til skattafslætti hingað og þangað þegar við erum að berjast við að halda almennri velferð í landinu og ná endum saman hvað ríkissjóð varðar. (Gripið fram í: Icesave.) — Og að blanda Icesave inn í þessa umræðu er svo fullkomlega glatað að ég ætla ekki einu sinni að fara út í það. (Gripið fram í: Ekki gera það.)

Þegar ríkissjóður verður aflögufær er það mín bjargfasta skoðun að við eigum að fara í að hækka barnabætur. Það er leið jafnaðarmanna til að koma til móts við barnafólk í landinu. (BJJ: Mínus 30%.) Það er ekki leið jafnaðarmanna að láta þá sem meira hafa hafa hærri ríkisstyrk en þá sem eru með minna á milli handanna. Það er röng stefna. Leið jafnaðarmanna er að mæta barnafjölskyldum með barnabótum og við munum stefna að því að gera það.