140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

hlutfall skatta og gjalda til ríkissjóðs af útsöluverði bensíns og dísilolíu.

500. mál
[17:50]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vildi beina tveimur eða þremur spurningum til hæstv. fjármálaráðherra. Annars vegar um hvort ekki sé rétt munað hjá mér að við fjárlagagerðina hafi verið reiknað með að umferð ykist um 2%. Hið gagnstæða hefur orðið raunin, umferð hefur minnkað verulega, milli 5 og 10% víða á vegum. Væntanlega spilar þar skattlagning á eldsneyti mjög stóra rullu en auðvitað önnur skattlagning og krappari kjör almennings líka.

Hins vegar vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra um þá krónutölu sem skilar sér í ríkiskassann, hvort í áætlunum fjármálaráðuneytisins hafi verið gert ráð fyrir eldsneytisverði í þessum hæðum, 260 eða 270 kr., eða hvort gert hafi verið ráð fyrir öðrum upphæðum og þar af leiðandi öðrum upphæðum í ríkiskassann. (Forseti hringir.) Er ekki verið að taka inn óþarflega mikið fé á þessum lið?