140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

hlutfall skatta og gjalda til ríkissjóðs af útsöluverði bensíns og dísilolíu.

500. mál
[17:51]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég tek undir spurningar hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar til hæstv. fjármálaráðherra. Ég hjó eftir því í tölum sem hæstv. ráðherra kom með að útsöluverð á bensíni í Noregi og Danmörku væri um það bil 10% hærra en hér á landi. Hefur hæstv. ráðherra gert einhverja könnun á því hver munurinn er á launavísitölu hér á landi og í Danmörku og Noregi? Mér segir svo hugur að laun þar séu mun hærri en hér á landi og sá munur sé meiri en 10%. Þess vegna er alveg ljóst að hlutfallslega er eldsneytisverð mun lægra til að mynda í þeim löndum sem ég nefndi.

En af því að hæstv. ráðherra hefur komið hér ítrekað upp og neitað því að vilja lækka álögur á eldsneyti vil ég spyrja ráðherrann hvort ríkisstjórnin hafi hugleitt að hækka enn frekar álögur á eldsneyti ef miða á við nálgun (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra í þessari umræðu sem við framsóknarmenn styðjum að sjálfsögðu ekki.