140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

hlutfall skatta og gjalda til ríkissjóðs af útsöluverði bensíns og dísilolíu.

500. mál
[17:54]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Núverandi ríkisstjórn segist vera norræn velferðarstjórn og það sem er verst við þá norrænu velferðarstjórn er að hún eltir yfirleitt helstu vitleysurnar sem hún finnur á Norðurlöndunum. Þess vegna grunar mig núna að þegar búið er að leggja fram þessi gögn um að það finnist hærra bensínverð á Norðurlöndunum en hér verði það orðið að sjálfstæðu markmiði hér innan lands af hálfu ríkisstjórnarinnar að reyna að elta norræna velferð í þessum efnum og hækka öll bensín- og olíugjöld þannig að við verðum örugglega ekki neinir eftirbátar Norðurlandanna að þessu leytinu.

Það er auðvitað þannig að sú mikilvæga breyting var gerð á sínum tíma, undir forustu sjálfstæðismanna að sjálfsögðu, að hverfa frá hinum hlutfallslegu sköttum sem voru hér á eldsneyti og færa þá yfir í krónutöluskatta. Það er auðvitað mjög mikilvægt. En nú vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra einfaldrar spurningar og hún er sú: Nú er eldsneytisverð orðið þetta hátt eins og allir sjá, telur hæstv. ráðherra þá ekki tilefni til þess að ríkið slaki á klónni, dragi úr skattheimtunni? Það er ljóst að skattheimtan hefur farið hækkandi, það kom fram í máli hæstv. ráðherra, og (Forseti hringir.) er þá ekki tilefni til þess núna, þegar eldsneytisverðið er í hæstu hæðum (Forseti hringir.) og hv. þm. Mörður Árnason spáir því að það muni hækka enn, að reyna að stuðla að lækkun þess með lægri gjöldum hins opinbera?

(Forseti (ÞBack): Enn vill forseti minna hv. þingmenn á ræðutímann.)