140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

þróun raforkuverðs.

337. mál
[18:03]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar fjallað er um verðmyndun á raforku hvort sem er á Íslandi eða öðrum mörkuðum er mikilvægt að hafa eiginleika hennar sem verslunarvöru í huga. Raforka er ólík flestum hrávörum að því leyti að hana er ekki hægt að geyma og flutningur hennar því miklum takmörkunum háður. Þetta veldur því að raforkuvinnslan á sér venjulega stað ekki svo langt frá notendum hennar, ólíkt öðrum hrávörum svo sem olíu, málmum eða korni. Því getur munur á verði raforku á milli markaða verið nokkuð mikill og í sumum tilfellum mjög mikill, ólíkt fyrrnefndum hrávörum sem allar mynda einhvers konar heimsmarkaðsverð.

Fjarlægð Íslands frá stærri raforkukerfum veldur því að verðmyndun tekur eingöngu mið af eftirspurn hér á landi þar sem engir möguleikar eru til að flytja orkuna út með beinum hætti. Svipaðar aðstæður voru í Noregi fyrir tveimur áratugum en þá var hafist handa við að tengja Noreg betur við raforkukerfin í nágrannaríkjunum. Við það hækkaði raforkuverð í Noregi töluvert.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill geta þess að klukkan hefur gengið skrykkjótt. Forseti biður ráðherra að halda áfram ræðu sinni.)

Með raforkulögum nr. 65/2003 var verðlagning raforku gefin frjáls hér á landi og sú stefna mörkuð að verðmyndun hennar ætti að gerast á frjálsum markaði. Samtímis því hafa orkufyrirtækin og stjórnvöld unnið að markaðsstarfi erlendis með því markmiði að auka áhuga erlendra fyrirtækja á íslenskri orku og þar með eftirspurn. Gerist það mun það þrýsta á hækkun orkuverðs og þar sem Ísland er óbeint útflutningsland á raforku er það hagur okkar að raforkuverð hækki, rétt eins og fiskverð eða aðrar útflutningsafurðir. Raforkuverð er því ekki stjórnvaldsákvörðun heldur afleiðing markaðsaðstæðna.

Vegna þess að langstærsti hluti raforkufyrirtækja á Íslandi er í opinberri eigu og langstærsti hluti raforkunnar er seldur til iðnaðar er það hagur almennings hér á landi að orkuverð hækki, rétt eins og það er hagur Norðmanna og Sádi-Araba að olíuverð hækki og Íslendinga að fiskverð hækki.

Sviðsmynd sú sem Landsvirkjun kynnti á síðasta haustfundi sínum gerir ráð fyrir að fyrirtækinu takist að tvöfalda raforkuverð á næstu 20 árum. Landsvirkjun selur ekki orku í smásölu en ætla má að þau áhrif markaðsaðstæðna sem valda breytingum á orkuverði hjá Landsvirkjun hafi sömu áhrif á öllum markaðnum og komi þar með fram í smásölunni. Hlutdeild orkukostnaðar í rafmagnsreikningi heimilanna er rétt undir 50%. Hin 50% eru vegna kostnaðar við dreifingu og flutning auk 12 aura orkuskatts. Því mun almenn 100% hækkun orkuhlutans valda tæplega 50% hækkun innkaupsverðs almenna markaðarins. Takist þetta er það ákvörðun stjórnvalda þess tíma að ákveða hvort sú hækkun komi fram í kostnaði almennings í raforkuverði eða ekki. Ef orkufyrirtækin verða í opinberri eigu er hægðarleikur að verja almenna markaðinn fyrir slíkri hækkun. Í því tilfelli skiptir reyndar hækkunin almenning einnig máli því þá er hann sjálfur að borga sjálfum sér hærra verð, ólíkt því sem gerist t.d. í kvótakerfinu í sjávarútvegi þar sem tekjuaukning vegna mikillar hækkunar fiskverðs rennur í vasa einkaaðila eins og kerfið er byggt upp núna. Við verðum að forðast að endurtaka þau mistök.