140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

markaðsverkefnið „Ísland – allt árið“.

437. mál
[18:15]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég spyr hæstv. starfandi iðnaðarráðherra nokkurra spurninga um verkefnið Ísland – allt árið. Í kjölfar eldgosanna í Eyjafjallajökli og Vatnajökli var sett á laggirnar verkefnið Inspired by Iceland og var „meintur“ árangur þess talinn góður. Ég segi meintur vegna þess að ég kannast ekki við að upp hafi verið settir sérstakir árangursmælar og því spyr ég hæstv. iðnaðarráðherra hvernig árangurinn af því verkefni verði mældur.

Af umræðum við ferðaþjónustuaðila að ráða virðist það nefnilega vera svo að því lengra sem farið er frá Reykjavík þeim mun minni spurnir hafi menn haft af Inspired by Iceland. Sjálfsagt spilaði hátt eldsneytisverð þar stóra rullu, menn hafa ekki treyst sér til að keyra langt og annað í þeim dúr, en það getur líka verið að sjálft verkefnið hafi markaðslega ekki höfðað til alls Íslands. Það skiptir ákaflega miklu máli að þetta verkefni, Ísland – allt árið, sé sett þannig upp. Ég spyr hæstv. iðnaðarráðherra hver markmið þessa verkefnis séu, hvort það hefði kannski átt að heita Allt Ísland – allt árið, og hvernig það er hugsað.

Mig langar líka að nefna tvær skriflegar fyrirspurnir sem ég sendi til innanríkisráðherra fyrr í vetur, um færð á vegum og vetrarþjónustu Vegagerðarinnar, og fékk skriflegt svar við fyrir skömmu. Fjölmargir vegir hafa verið ófærir eða illfærir nú í vetur — auðvitað ráða stjórnvöld ekki veðrinu á Íslandi en við höfum verið að draga alveg gríðarlega mikið úr vetrarþjónustu. Við heyrðum af því í fjölmiðlum að á vegum austanlands hefði ítrekað þurft að draga upp bílaleigubíla og meira að segja í þjóðgarðinum á Þingvöllum hefði þurft að draga upp rútur á laugardaginn vegna þess að þá var þar ekki nein vetrarþjónusta.

Spurningin er: Hvernig virkar þetta saman — annars vegar sú stefna að selja útlendingum þann pakka að koma til Íslands allt árið, þ.e. yfir veturinn, en draga síðan úr þjónustu um allt land þannig að ferðamennirnir komist ekki neitt nema upp í rútu og hugsanlega milli Keflavíkur og Reykjavíkur? Mér finnst ákaflega mikilvægt að hæstv. iðnaðarráðherra fari yfir þessi markmið og útskýri fyrir okkur hvernig þetta er gert.

Ég spyr einnig hversu miklir fjármunir hafa verið settir í verkefnið og hverjir eigi að fá þá fjármuni. Það skiptir líka máli upp á það hvernig til tekst að dreifa ferðamönnum um landið. Ég legg jafnvel til að tekið verði upp nýtt heiti á átakið og það verði kallað Allt Ísland – allt árið.