140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

markaðsverkefnið „Ísland – allt árið“.

437. mál
[18:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hún gat gefið í þessum stutta umræðutíma. Ég vil taka fram að það er ákaflega mikilvægt að gera ferðaþjónustuna að heilsársstarfsemi og tryggja að hún geti byggst upp.

Það hefur verið horft til hennar sem grunnstoðar, ekki síst víða úti á landi þar sem aðrir valkostir í atvinnustarfsemi eru ekki fyrir hendi. Nefna má svæðið frá Hvolsvelli eða frá Markarfljóti og austur á Höfn og auðvitað mörg önnur svæði. En ég vil þá jafnframt hvetja hæstv. iðnaðarráðherra, sem er einnig hæstv. fjármálaráðherra, til að átta sig á því að þeir fjármunir sem menn setja inn í vetrarþjónustuna og uppbyggingu á infrastrúktúr í þessum samfélögum er forsenda fyrir því að ferðaþjónustan geti tekið við auknum fjölda. Og sterkar vísbendingar eru um að á næstu árum jafnvel áratugum verði Ísland mjög vinsælt ferðamannaland.

Það var ákaflega forvitnilegt að heyra að eitt af markmiðunum væri að endurgreiðslur af virðisauka eða erlendum ferðamönnum ættu að fara úr 300 í 500 millj. kr., þ.e. að meiri hvati yrði til verslunar innan lands og ávinningurinn yrði eftir í kerfinu. Það var athyglisvert í ljósi þeirrar umræðu sem við höfum tekið í dag um lækkun á eldsneytisverði og um lækkun á virðisauka á barnafötum sem hæstv. fjármálaráðherra taldi öll tormerki á þó að við sem tölum fyrir því sjáum að nákvæmlega það sama sé þar að verki eins og með erlendu ferðamennina, þ.e. að ef þeir koma til landsins og fjárfesta og kaupa verði til veltuaukningu.

Það er ákaflega mikilvægt að þetta verði tryggt og eins og ég sagði í fyrri ræðu minni ætti kannski að tryggja það að markmiðið náist með því að verkefnið héti Allt Ísland – allt árið.