140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

markaðsverkefnið „Ísland – allt árið“.

437. mál
[18:27]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Mælingar liggja fyrir á haustátaki verkefnisins Ísland – allt árið sem stóð frá október til áramóta. Við greiningu á umfjöllun í öllum miðlum á heimsvísu kemur fram að fjallað var í 57 löndum um þá nýjung að Íslendingar bjóða ferðafólki í persónulega heimsókn, m.a. forseti landsins, borgarstjórinn í Reykjavík, ferðamálaráðherrann og fjöldi annarra. Líklega eru fá lönd í heiminum sem gætu brugðið á þennan leik.

Haustátakið var sú landkynningarherferð í heiminum sem var mest umtöluð í haust samkvæmt þessum mælingum. Auglýsinga- og almannatengslastofan Brooklyn Brothers, samstarfsstofa verkefnisins Ísland – allt árið, reiknar út almannatengslavirði umfjöllunar af þessu tagi og samkvæmt henni er andvirði hennar 1,7 milljarðar kr. Eftir að haustátakið hófst í október mældist 50% aukning á heimsóknum á vef verkefnisins og hún var mest frá Bandaríkjunum, Frakklandi, Bretlandi og Hollandi sem eru þau markaðssvæði sem haustátakinu var beint að. Verið er að mæla hversu mikil aukning er í jákvæðu umtali um Ísland á vefnum og fyrirtækið Seasons hefur látið í té þær upplýsingar að 165% aukning sé í jákvæðu viðhorfi til Íslands í allri umfjöllun á netinu. Í upphafi haustátaks voru vinir Inspired by Iceland á Facebook 56.000 en eru nú 66.500 og þykir það mikil aukning á stuttum tíma. Ég tel engum blöðum um það að fletta, eins og ég hef rakið, að þau skilaboð sem við erum að senda á vegum verkefnisins Ísland – allt árið komist til skila. Tölur um fjölgun erlendra ferðamanna í nóvember, desember og janúar og fjölgun áfangastaða og flugfélaga sem fljúga til Íslands allt árið gefa vísbendingar um að markaðsstarfið sé að skila árangri.