140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

framhaldsskólastig á Vopnafirði.

481. mál
[18:41]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Hnífurinn gengur yfirleitt ekki mjög hátt á lofti milli okkar hv. fyrirspyrjanda sem er ágætt því að ég held að við deilum að mörgu leyti skoðunum á menntamálum. Það er auðvitað mjög jákvætt að finna að oft getum við náð ágætissamhljómi hér í þingsal þegar að þeim kemur.

Hvað varðar framhaldsdeildirnar og framhaldsskólanám í heimabyggð hef ég lesið þingheim þannig að fólk sé almennt mjög áhugasamt, hv. þingmenn eru áhugasamir um að unnt verði að tryggja nám í heimabyggð fyrir sem flesta upp að 18 ára aldri. Mér fannst það góð athugasemd hjá hv. þm. Eygló Harðardóttur að minna á að kannski þarf að stíga aðeins út fyrir kerfið sem við erum í. Það er eitt af því sem ég hef rætt við fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga að hugsanlega sé þörf á því að horfa á lagaumhverfið sem við erum með núna og velta vöngum yfir því hvort ástæða sé til að undirbúa jafnvel lög um skólakerfi til að tryggja þá samfellu sem við erum alltaf að leitast við að ná. Ég get tekið undir það með henni.

Það sem ég tel vera næst á döfinni er að reyna að greina landið allt út frá þörf fyrir framhaldsdeildir. Ef erindi berst frá Vopnfirðingum munum við að sjálfsögðu taka það til skoðunar inn í þá skoðun þannig að ég ætla ekki að lofa meiru, en að sjálfsögðu verður það skoðað með opnum huga. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við reynum að greina þetta og hvort við getum þá til að tryggja fjölbreytni í námsframboði — sem er kannski það sem ég hef áhyggjur af með smærri einingum — eflt samstarf skóla svæðisbundið og nýtt til þess fjar- og dreifnám og um leið eflt framhaldsdeildirnar. (BJJ: Samvinna.) Samvinna er lykilorð hér eins og stundum áður, hv. þingmaður.