140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

þátttaka í Eurovision-söngvakeppninni í Aserbaídsjan.

516. mál
[18:55]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég er áhugamaður um söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, frægur áhugamaður um þá keppni. Ég vona að við vinnum núna enda verði lagið sungið á íslensku. En þetta er auðvitað erfitt, bæði í þessu tilviki og eins þegar um er að ræða íþróttaleiki og hvað þá heimsóknir þingmanna. Ég tel það íhugunarvert þegar ríki bjóða fjölda þingmanna, Aserbaídsjan í þessu tilviki, (Gripið fram í.) og Taívan í öðru tilfelli; einu sinni hafði nánast hálfum þingheimi verið boðið til Taívan. Var það í greiðaskyni, var það í kynningarskyni eða til þess að safna liði? Þetta verðum við að gera upp við okkur og reyna að tala heiðarlega um. Í þessu tilviki er ég nokkuð sammála hæstv. menningarmálaráðherra um að ástæða sé til að fara eftir tilmælum Amnesty International en vil beina því til hennar og Ríkisútvarpsins, bara í þeim krafti sem ég hef standandi hér, að líka verði fjallað um Aserbaídsjan, sögu landsins, ástandið þar (Forseti hringir.) og deilurnar við Armeníu, á sama tíma og við tökum þátt í þessu hoppi og híi (Forseti hringir.) sem við höfum svo gaman af í Eurovision.