140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

þátttaka í Eurovision-söngvakeppninni í Aserbaídsjan.

516. mál
[18:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir svör hennar sem voru greinargóð og svöruðu öllum spurningum mínum. Ég þakka líka hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Ég vil taka skýrt fram að í fyrirspurn minni var ekki fólgin afstaða mín um að ekki ætti að taka þátt í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Aserbaídsjan að þessu sinni, heldur var hún fyrst og fremst sett fram í þeim tilgangi að fá fram umræðu um þetta mál. Ég tel það mjög mikilvægt. Hæstv. ráðherra talaði í þessu sambandi um sjálfstæði stofnana, í þessu tilfelli Ríkisútvarpsins, en einnig til dæmis að því er varðar þátttöku í íþróttaviðburðum o.s.frv.

Þar komum við að vissum kjarna í þessu máli. Já, ég tek undir það að stofnanir og félagasamtök þurfi að vera sjálfstæð en það má ekki vera undir hælinn lagt hver stefna Íslands er þegar kemur að samskiptum við þjóðir sem brjóta mannréttindi, af því að stjórnvöld fara með þá stefnumótun. Við getum ekki afgreitt þetta mál þannig að hver og einn verði bara að taka ákvörðun um það í hvert skipti. (Gripið fram í.) Við verðum að hafa einhverja línu í þessu. Þess vegna finnst mér það sem hæstv. ráðherra nefndi, hvort ekki þyrfti að fara fram einhver stefnumótun í þessu efni á vegum þingsins eða ríkisstjórnarinnar, vert athugunarefni. Það hittir þá kannski sjálfan mig dálítið fyrir í þeirri stöðu sem ég er í núna sem formaður utanríkismálanefndar, að taka það mál til skoðunar. Ekki mun standa á mér að hugleiða það.

Það er líka mikilvægt að nota þennan viðburð til að benda á stöðu mannréttindamála í landinu og það eigum við alltaf að gera. Af hálfu mannréttindasamtaka hefur líka verið bent á það að staða fjölmiðlunar í Aserbaídsjan er mjög erfið. Það er ekki tryggt að fjölmiðlar frá þátttökuríkjunum hafi alla möguleika til að senda fréttir þaðan, m.a. til þess að vekja athygli á stöðu mannréttindamála í landinu.

Ég þakka (Forseti hringir.) fyrir þessa umræðu og fyrir svör ráðherrans. Þetta vekur athygli á málinu og ég tek undir með hv. þm. Merði Árnasyni sem hvetur til þess að þannig verði frá því gengið að staða mála (Forseti hringir.) verði til umræðu og um hana fjallað í tengslum við þennan menningarviðburð. Og svo vona ég að sjálfsögðu eins og aðrir (Forseti hringir.) að ef við tökum þarna þátt vinnum við þessa keppni. [Hlátur í þingsal.]