140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

þátttaka í Eurovision-söngvakeppninni í Aserbaídsjan.

516. mál
[18:59]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir ágæta umræðu. Mig langar fyrst og fremst að koma tvennu á framfæri, í fyrsta lagi að alþjóðleg barátta gegn mannréttindabrotum snýst að miklu leyti um að vekja athygli á þeim. Á meðan enginn veit af slíkum brotum er mjög ólíklegt að af þeim verði látið. Að því leyti til get ég tekið undir hugmyndafræði alþjóðlegra mannréttindasamtaka sem segja að mestu skipti að nýta tækifærin til að vekja athygli á mannréttindabrotum fremur en að sniðganga ríkin og leyfa brotunum að þróast áfram.

Í öðru lagi get ég tekið undir það sem hv. fyrirspyrjandi, Árni Þór Sigurðsson, nefndi um stefnumótun á þessu sviði. Ég held að full ástæða sé til að annaðhvort utanríkisráðuneytið eða hv. utanríkismálanefnd Alþingis skoði og taki reglulega til skoðunar ársskýrslur virtra mannréttindasamtaka eins og Amnesty International og Human Rights Watch og taki þær til umfjöllunar og meti og taki afstöðu til þess með hvaða hætti eðlilegt sé að íslensk stjórnvöld bregðist við mannréttindabrotum einstakra ríkja og hvernig samskiptum við þau skuli háttað. Ég tel að á þessu sviði sé mikilvægt að við horfum á þetta út frá utanríkispólitísku sjónarmiði, að það sé ekki, eins og hv. þingmaður sagði réttilega, undir hælinn lagt hvernig við bregðumst við og tökum afstöðu til mála. Það held ég að sé fremur verksvið þeirra sem fara með utanríkisstefnu því að þetta eru mjög viðkvæm mál. Við vitum að oft hefur verið sagt að menning og íþróttir eigi að vera undanskilin þegar kemur að pólitískum samskiptum en á sama tíma vitum við að þessir málaflokkar eru einmitt oft notaðir til að koma pólitískum skilaboðum á framfæri. Ég held að í þessu tilfelli skipti mestu að við reynum að nota þennan viðburð til að koma ákveðnum pólitískum skilaboðum á framfæri gegn mannréttindabrotum hvar sem þau eru iðkuð.