140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

stefna í geðverndarmálum.

434. mál
[19:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Á heimsvísu er talið að um 450 milljónir einstaklinga þjáist af geð- eða hegðunarröskunum. Þannig er talið að einn af hverjum fimm muni fá einhverja tegund af geðsjúkdómum árlega. Yfir mannsævi er áætlað að einn af hverjum tveimur hafi fengið geðsjúkdóm á sinni ævi. Fjórar af sex meginástæðum örorku í heiminum eru geðröskun eða geðsjúkdómar á borð við þunglyndi, áfengissýki, geðklofa og geðhvarfasýki. Árið 2030 er áætlað að þunglyndi verði meginástæða örorku.

Hér á lendi eru geðfötlun og geðsjúkdómar ein helsta ástæða örorku og Geðhjálp stærstu einstöku félagasamtökin undir Öryrkjabandalaginu. Notkun geð- og taugalyfja eykst stöðugt og ekki hvað síst hjá börnum og ungu fólki. Því er fátt sem bendir til að þróunin verði önnur hér á landi en á heimsvísu, jafnvel hraðari ef eitthvað er og kostnaðurinn fyrir samfélagið mun því bara aukast.

Kostnaður vegna tauga- og geðlyfja hefur rúmlega tvöfaldast frá árinu 2003 til ársins 2009. Þannig var hann um 1.645 millj. kr. árið 2003 en 3.685 millj. kr. á síðasta ári og hafði þá lækkað um 300 milljónir frá árinu 2009, fyrst og fremst vegna breyttrar kostnaðarþátttöku ríkisins. Árið 1962 var geðröskun fyrsta sjúkdómsgreining hjá 19,5% kvenna sem fengu metna örorku í fyrsta sinn. Hjá körlum var hlutfallið 17,4% og á árabilinu 1999–2003 voru samsvarandi tölur fyrir konur 22% og 26,5%. Hins vegar hafði þetta aukist mjög mikið árið 2005 þannig að hlutfallið var þá orðið 32,8% hjá konum en hvorki meira né minna en 42,6% hjá körlum. Beinn fjárhagslegur sparnaður fyrir þjóðfélagið við að forða örorku hjá einum einstaklingi er áætlað að geti numið um 30 millj. kr. á æviskeiði hans skapist örorkan snemma.

Í síðustu heilbrigðisáætlun var eitt af grunnmarkmiðum áætlunarinnar að draga úr tíðni sjálfsvíga en þrátt fyrir það varð fjölgun sjálfsvíga á árabilinu 2006–2009. Ég held að flestir geti verið sammála um að það sé erfitt að setja verðmiða á heilt mannslíf þó að kannski hafi einhver reynt það. Geðheilsa er þannig í víðtækum skilningi grundvallarþáttur bæði í efnahagslegri og andlegri velferð okkar allra.

Megináherslan á síðasta alþjóðageðheilbrigðisdegi var nauðsyn þess að þjóðríki fjárfestu í geðheilsu. Þannig fer enn meginþorri fjármagns til geðheilbrigðisþjónustu til stofnana og velta má því upp hvort heilbrigðiskerfið endurspegli nægilega vel breyttar áherslur í geðheilbrigðisþjónustu. Talað hefur verið um að undirstaðan að því væri til dæmis afstofnanavæðing, notendastýrð þjónusta og sambærileg þjónusta úti um allt land.

Í ljósi þess hversu brýn og mikilvæg geðvernd er spyr ég hæstv. velferðarráðherra: Hver er stefna ráðherra í geðverndarmálum og hvernig er henni framfylgt?