140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

stefna í geðverndarmálum.

434. mál
[19:17]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir hefur beint til mín mjög mikilvægri fyrirspurn um málefni sem hún gerði afar vel grein fyrir af hverju er svo mikilvægt. Það er rétt sem kemur fram í fyrirspurninni að hér er um að ræða bæði vaxandi vandamál og gríðarlega stórt vandamál í okkar heilbrigðiskerfi og samfélagi.

Spurningin er hver sé stefna ráðherra í geðverndarmálum og hvernig henni sé framfylgt. Geðvernd er auðvitað víðtækt hugtak því að geðvernd miðar að því að efla og vernda geðheilsu og á að draga úr geðheilsuvanda og afleiðingum geðsjúkdóma. Það er nú venjan að skipta þessu í tvö stig, annars vegar forvarnir og hins vegar viðbrögð við geðrænum einkennum og stuðningi við þá sem lifa með geðsjúkdóma. Það er stefna þess sem hér stendur að fylgja eftir báðum þessum þáttum eins vel og hægt er og ég ætla að fara yfir nokkur atriði þess sem verið er að gera og kannski það sem við þurfum að gera.

Grunnþátturinn í forvörnum er þekking og skilningur á því hvað unnt er að gera til að efla rækt og vernda geðheilsuna. Fræðsla, ráðgjöf og upplýsingar svo og góð uppeldisskilyrði, aðbúnaður og almenn lífsskilyrði skipta höfuðmáli. Þar vega þungt þættir eins og að styrkja sjálfsmynd einstaklinga, að draga úr einmanaleika, standa við hlið þeirra sem mætt hafa fordómum og berjast gegn einelti og ofbeldi í ýmsum myndum. Stuðningur við þá sem glíma við sorg og missi er einnig mikilvægur og að veita áfallahjálp þegar hennar gerist þörf.

Mikið starf er unnið innan heilbrigðis- og félagsþjónustunnar og í skólastarfi við að fræða einstaklinga og hópa svo og að greina vanda snemma til að koma í veg fyrir geðrænar afleiðingar sem af því geta hlotist. Reglubundnar kannanir í skólum landsins þar sem m.a. er könnuð áfengis- og vímuefnaneysla barna gefa mikilvægar vísbendingar um þróun og leiðir, hvar þarf að herða á forvörnum og hvar mögulega þarf að grípa inn í vegna vísbendinga um vanda. Þá er mikið starf unnið í sveitarfélögum til að styðja börn og fjölskyldur sem tvímælalaust hefur mikið forvarnagildi varðandi geðheilsu einstaklinga.

Ein af megináherslum í mæðravernd og í ung- og smábarnavernd er geðvernd og í ung- og smábarnaverndinni er aukin áhersla lögð á leiðbeiningar um hegðun og uppeldi barna. Fjöldi færniþjálfunarnámskeiða hefur verið haldinn innan heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fyrir foreldra og börn, svo sem uppeldisnámskeið og námskeið um ADHD. Þá er sérstaklega verkefni til margra ára heilsuefling í skólum, bæði í grunn- og framhaldsskólum, þar sem geðrækt er hluti af heildarnálguninni og eins í verkefninu 6H heilsunnar. Embætti landlæknis hefur einnig staðið fyrir geðræktarverkefni á yngstu stigum grunnskólans með því að þjálfa kennara í að kenna alþjóðlegt lífsleikninámsefni, Vinir Zippýs, sem miðar að því að efla félagsfærni barna og bjargráð þeirra til að takast á við erfiðar aðstæður.

Viðamikið starf hefur verið unnið varðandi sjálfsvígsforvarnir og forvarnir gegn þunglyndi og kvíða. Starfið, sem er einkum á vegum embættis landlæknis, hefur beinst að því að fræða fagfólk og deila þekkingu inn í nærsamfélög um allt land. Hér má einnig nefna mikilvægt starf tengt áfallahjálp og skipulagi áfallahjálpar á landsvísu í hópslysum og á neyðartímum.

Miklar breytingar hafa átt sér stað í allri meðferð einstaklinga sem glíma við geðræn einkenni, geðröskun og geðsjúkdóma. Lyf eru þar auðvitað mikilvægur þáttur í meðferð flestra en önnur meðferðarform hafa að undanförnu orðið stærri hluti af heildrænum stuðningi. Þar má nefna viðtalsmeðferð, hugræna atferlismeðferð, þjálfun í kvíðastjórnun og ýmsar sálfélagslegar meðferðir. Mikil áhersla er nú lögð á aðkomu margra faghópa að meðferð og stuðningi við einstaklinga og með beinni aðkomu einstaklinganna sjálfra og aðstandenda þeirra að meðferðinni. Þannig er til dæmis á geðdeild Landspítalans starfandi notendaráð.

Virkni og endurhæfing er ráðandi þáttur í bata og getur fyrirbyggt önnur vandamál og vanlíðan. Miklu máli skiptir einnig að breyta viðhorfi okkar til geðsjúkra og bataferlis þeirra og styðja þá til að lifa sem næst eðlilegu lífi. Þannig hefur meðferð líka í stórum mæli færst frá stofnunum út í samfélagið og nú má segja að það heyri sögunni til að fólk sem glímir við geðsjúkdóma þurfi að vistast á stofnun til lengri tíma. Þarna ekki síður en í forvarnastarfinu er aðkoma og samstarf við sveitarfélög lykilatriði og verkefnið Straumhvörf hófst árið 2006 og náði því markmiði á fjórum árum að koma meðal annars 140 geðfötluðum einstaklingum sem höfðu dvalist á stofnunum út í samfélagið og í sjálfstæða búsetu ellegar búsetu með stuðningi. Í tengslum við verkefnið fengu þeir aðstoð til að stunda vinnu, menntun og endurhæfingu eða nýta sér aðra þjónustu í samfélaginu og verkefnið Straumhvörf var í rauninni fyrsti formgerði vettvangurinn til að koma á samfélagsgeðþjónustu sem hefur það að markmiði að styðja fólk í nærumhverfi sínu.

Ég vil geta þess að á umliðnum missirum hefur ný heilbrigðisáætlun verið í undirbúningi í velferðarráðuneytinu og í drögum þeirrar áætlunar er geðheilbrigði eitt af forgangsverkefnunum. Stefnt er að því að leggja nýja heilbrigðisáætlun fyrir Alþingi næsta haust.

Ég mun svo kannski í síðara svari mínu fara betur inn á einstaka aðra þætti.