140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja hver stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er í þeim málum sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason víkur að. Hún hefur komið skýrt fram í samþykktum flokksins og málefnaskrám. Við teljum að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess.

Við höfum jafnframt sagt það í okkar samþykktum að við viljum að þjóðin ráði þessum málum til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Á þeim grunni varð það niðurstaðan við myndun núverandi ríkisstjórnar, eins og þingheimur veit, að leggja þetta mál í dóm Alþingis. Meiri hluti Alþingis tók þá ákvörðun að sækja um aðild að Evrópusambandinu og ég er trúr þeirri samþykkt Alþingis.

Ég tel mikilvægt að þetta ferli verði klárað og niðurstaðan verði lögð í dóm þjóðarinnar. Það hefur verið mín afstaða allan tímann að vilja flýta þessu ferli eins og kostur er og um það erum ég og hæstv. innanríkisráðherra, og fleiri í mínum þingflokki, algerlega sammála. Það er okkar afstaða. Við hefðum viljað ljúka því sem fyrst.

Ýmislegt hefur hins vegar orðið til þess að ferlið hefur tafist. Það eru bæði ástæður sem má rekja til Evrópusambandsins en líka ástæður sem má rekja til okkar heimavallar í því efni. Þannig er staðan. Þá vaknar sú spurning: Er betra að segja: Ja, við ætlum ekkert endilega að klára þetta ferli heldur hafa atkvæðagreiðslu á einhverjum tilteknum tímapunkti? Er það góð niðurstaða? Mér finnst það í sjálfu sér ekki góð niðurstaða. Ég vil ljúka þessu ferli og bera niðurstöðuna í heild sinni undir þjóðina.

Hins vegar er rétt að það komi fram, eins og við höfum gjarnan sagt í þessari umræðu, að ef við í viðræðunum sjálfum lendum í efnislegu strandi í mikilvægum málaflokkum kann sú staða að koma upp að við verðum að taka málið aftur inn í þing, eins og meiri hluti utanríkismálanefndar sagði á sínum tíma, (Forseti hringir.) og taka þá afstöðu til þess hvort menn vilja halda áfram miðað við þá stöðu sem þá verður uppi.

Að fara að ákveða einhverja dagsetningu bara til að geta kosið þegar (Forseti hringir.) hún rennur upp, án tillits til þess hvar við erum stödd í ferlinu, það finnst mér ekki góð leið.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill minna á ræðutíma, hann er tvær mínútur, biður hv. þingmenn um að virða hann.)