140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það fer að verða hálfámátlegt að horfa á þingmenn Vinstri grænna koma hingað og verja þessa Evrópusambandsumsókn þvert á fyrri yfirlýsingar sínar og þvert á stefnuskrá flokksins. Nú er allt kapp lagt á að klára viðræðurnar og engu skiptir hve lengi þær standa.

Það vita allir sem fylgjast með pólitík að Samfylkingin ætlar ekki að fara með þetta mál leyst í gegnum næstu kosningar og þess vegna eru Vinstri grænir í þessu ríkisstjórnarsamstarfi ekkert annað en hækja Samfylkingarinnar.

Samtök iðnaðarins létu Capacent Gallup útbúa fyrir sig spurningakönnun í janúar og þar koma fram ansi athyglisverðar upplýsingar. Þar var spurt: Ef aðild Íslands að Evrópusambandinu yrði borin undir þjóðaratkvæði í dag, hvernig telur þú líklegast að þú mundir greiða atkvæði? Þeir sem mundu greiða atkvæði á móti Evrópusambandinu voru 67,4%. Tæp 70% landsmanna vilja hætta þeirri vegferð sem ríkisstjórnin er á, hætta þeirri helvegferð sem ríkisstjórnin er á í ESB-málinu. Þar fyrir utan vill jafnstór hluti þjóðarinnar losna alfarið við ríkisstjórnina.

Ég spurði í síðustu viku, frú forseti, vegna þess að forseti Alþingis er forseti allra þingmanna: Á að setja tillögu mína á dagskrá í þessari viku — tillögu sem snýr að því að þingmenn fái að greiða um það atkvæði hvort landsmenn fái að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum um það hvort halda eigi áfram með ESB-umsóknina eða ekki? Er svara að vænta, frú forseti? Kemst þetta mál á dagskrá?