140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Um leið og ég tek undir það með hv. þingflokksformanni Vinstri grænna, Birni Val Gíslasyni, í hans útleggingu og svari við spurningu hv. þingmanns, að mikilvægt sé að stór og mikilvæg mál komi inn í þingið sem allra fyrst, þá megum við heldur ekki gera lítið úr dagskrá þingsins undanfarið. Við höfum fjallað um merkileg málefni, við sjáum til dæmis að á dagskrá þingsins í dag eru hin ágætustu mál.

Okkur hefur gefist tími til að ræða mál frá einstaka þingmönnum og það er mikilvægt fyrir ásjónu þingsins að hér séu ekki eingöngu stjórnarfrumvörp á dagskrá heldur fái þingmenn líka að koma málum á dagskrá. Við búum hins vegar um leið í haginn fyrir þau stóru mál sem eru væntanleg og við þekkjum öll, hvort sem það er rammaáætlun um vernd og nýtingu orkusvæða, nýtt fiskveiðistjórnarkerfi eða fjárlög næsta árs. Við verðum búin að taka á þeim málum sem komið hafa frá einstaka þingmönnum þegar þessi stóru mál koma inn og gefst þá frekar tími til að ræða þau.