140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hefur að undanförnu verið að fjalla um afleiðingar dóms Hæstaréttar um gengistryggð lán og vægi fullnaðarkvittana og vil ég reifa kenningu sem kynnt hefur verið í nefndinni í því samhengi.

Vísbendingar eru um að misskipting muni aukast í samfélagi okkar eftir dóm Hæstaréttar — að þeir sem tóku gengistryggð lán, að minnsta kosti fram til ársins 2008, hafi að stórum hluta verið einstaklingar með háar tekjur, fólk sem gat tekið á sig tímabundnar gengissveiflur og hafði nægilegt eigið fé til að mæta kröfu fjármálastofnana um 65% hámarkslánshlutfall.

Um síðustu áramót höfðu skuldir heimilanna verið færðar niður um rúmlega 196 milljarða kr. frá hruni, þar af um 146,5 milljarða eða 75% vegna ólöglegra gengistryggðra lána. Ef það er þannig — og ég segi ef af því að kenninguna þarf að staðreyna með gögnum — að þeir sem tóku gengistryggð lán hafi ekki bara fengið mun meiri skuldaleiðréttingu en lánþegar með verðtryggð lán heldur einnig verið betur stæðir fjárhagslega og þar með í betri færum til að standast áföll vegna gengissveiflna þá stöndum við frammi fyrir þeirri spurningu í þessum sal, sem er siðferðisleg og pólitísk, hvort til sé að verða í samfélaginu gjá ójafnaðar sem ekki geti samrýmst samfélagi sem vill byggja á norrænum velferðargildum. (Gripið fram í: Það er margt í boði.)

Við megum ekki gefa væntingar sem ekki verður hægt að standa við. Við munum ekki geta boðið stórfelldan flatan niðurskurð á kostnað ríkisins á lánum enda mundi sú leið hafa í för með sér að skattborgarar þessa lands, þar með talið fólk með lágar og meðaltekjur, væri að fjármagna milljónaafskriftir til hátekju- og stóreignamanna. Það er hvorki vit né réttlæti í slíkum aðgerðum.

Við getum heldur ekki leyst vandann með peningaprentun. Þá hefðum við sett prentvélarnar í gang í október 2009 og prentað okkur út úr kreppunni. En við eigum hins vegar að leita raunhæfra leiða til að koma til móts við þær fjölskyldur, ekki síst ungar barnafjölskyldur, sem keyptu húsnæði á uppsprengdu verði á lokaárunum fyrir hrun og urðu svo verst fyrir barðinu á stökkbreytingu lána í kjölfarið. (Forseti hringir.) Það er pólitík í anda norrænnar velferðar að jafna byrðarnar og koma til móts við þá sem þurfa mest á aðstoð að halda og við þurfum að leita þeirra lausna sameiginlega í þinginu á næstu vikum.