140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Menn ræða það nú hvort hægt sé að lækka álögur á eldsneyti og er það eðlileg umræða í ljósi þess að bensínlítrinn kostar um 255 kr. og dísilolían töluvert meira. Það ber að skoða ýmsar leiðir í þessum efnum að mínu viti, þó innan þeirra marka að ríkið verði ekki af tekjum. Við verðum að sýna ráðdeild í rekstri ríkissjóðs sem aldrei fyrr.

Það má til dæmis skoða hvernig hækkandi bensínverð bitnar misjafnlega á landsmönnum. Ég nefni konur sem þurfa að fara frá Patreksfirði yfir 400 kílómetra leið til að fá fæðingarþjónustu, til Reykjavíkur yfir háveturinn. Ég nefni líka yfir allt árið konur frá Þórshöfn sem þurfa að fara 250 kílómetra leið til Akureyrar í leit að fæðingarþjónustu, 500 kílómetra fram og til baka. Það er margt sem þarf að skoða í þessu efni þegar kemur að hækkandi bensínverði og hvernig það bitnar á landsmönnum.

Við skulum samt hafa staðreyndir í huga. Þetta hefur verið reynt einu sinni, árið 2002. Það var ekki af velvilja gagnvart neytendum heldur til að halda verðlagi innan rauðra strika gagnvart verkalýðshreyfingunni en á þeim tíma var hlutdeild ríkisins í bensínverði hvað hæst — hefur reyndar aldrei verið hærri en 1999 þegar hún var 73,3% af bensíninu en 60,0% af dísillítranum en samsvarandi tölur eru núna 48% hvað bensínið varðar og 44,3%.

Þeir sem tala um að vinstri stjórnin sem nú ræður ríkjum sé skattpínandinn verða að þekkja til sögunnar. Hlutdeild ríkisins í bensínlítra og dísillítra hefur aldrei verið hærri en 1999 annars vegar og 2005 hins vegar.