140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

374. mál
[14:15]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, með síðari breytingum. Það frumvarp sem hér um ræðir er mjög þröngt og afmarkað og snýr að því að heimilt sé tímabundið, til þriggja ára, að nota fé ofanflóðasjóðs til að taka þátt í greiðslu kostnaðar við hættumat vegna eldgosa. Þetta var þó nokkuð rætt í umhverfis- og samgöngunefnd og almennt mikil jákvæðni gagnvart því verkefni sem nú þegar er hafið og að hluta til greitt af alþjóðlegum stofnunum. Einnig var rætt um það innan umhverfis- og samgöngunefndar, m.a. líka í þessum þingsal við umræðu málsins á fyrri stigum, hvort tilefni væri til að stofna sérstakan hamfarasjóð þar sem tekið væri miklu heildstæðara á ólíkum náttúruhamförum, ólíkum gerðum náttúruhamfara.

Í grunninn og í grunnhugsun þeirri sem kemur fram í breytingartillögu frá hv. þm. Jóni Gunnarssyni, það er hægt er að taka undir grunnhugsunina í þessu og það held ég að við getum mörg, en það verður að fara fram mun ítarlegri og heildstæðari vinna við að undirbúa svo róttæka og stóra breytingu í þeim efnum. Það höfum við einmitt rætt innan umhverfis- og samgöngunefndar, um hugsanlegan framtíðarhamfarasjóð. En ég tel að svo stöddu breytingartillöguna opna svo mikið fyrir hlutverk þess sjóðs sem um ræðir að það sé betur til þess fallið fyrir málefnið og fyrir alla aðila að halda okkur við þá þröngu skilgreiningu sem farið er af stað með og setja síðan af stað vinnu við að skilgreina einmitt það sem breytingartillaga hv. þingmanns lýtur að, sem er að sjá fyrir sér til framtíðar einhvers konar hamfarasjóð þar sem ólíkar gerðar af náttúruhamförum fá sinn sess.