140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

374. mál
[14:17]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að nauðsynlegt er að fara í endurskoðun á þessum málaflokki. Það er mjög eðlilegt að við horfum til þess að hér verði stofnaður einn hamfarasjóður sem taki á víðtæku hlutverki í forvörnum og viðbragðsáætlunum, hættumati og síðan bótatjónum til þeirra sem hugsanlega verða fyrir tjóni í náttúruhamförum. Það er mjög mikilvægt, en það er vinna sem mun taka svolítinn tíma. Þess vegna er það ákvæði sem við erum að tala um hér, um breytingar á lögum um ofanflóðasjóð, tímabundið, til þriggja ára. Það sem ég er einfaldlega að leggja til við þingheim er að við nýtum þann tíma, að heimildin verði opin í þennan takmarkaða tíma til að hægt verði að fara í heildstæðari vinnu. Það er mikil hagræðing fólgin í því að geta einbeitt sér að ákveðnum svæðum með fleiri en eina náttúruvá í huga á hverjum tíma vegna þess að hættumatið og viðbragðsáætlanir við hættumati fer saman eftir því hver náttúruváin er. Það er svo margt sem er sameiginlegt í þessu. Það er því hagstætt að gera þetta í einum pakka og mun gefa ákveðna innspýtingu inn í þetta starf og hefur í raun ekki með neina stóra fjármuni að gera. Þetta mun ekki hafa nein stórkostleg áhrif á þennan sjóð. Það eru til einir 6–7 milljarðar í sjóðnum, ef ég veit rétt, og við erum að tala um kostnað upp á kannski tugi milljóna. Það er ekki um meira að ræða.