140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

fundarstjórn.

[14:21]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að gera athugasemd við fundarstjórn frú forseta sem er annars iðulega góð og ég er yfirleitt mjög ánægð með fundarstjórn frú forseta.

Það gerðist í umræðum áðan undir liðnum um störf þingsins að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir kallaði í þrígang fram í undir ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar og ég ætla að fá að hafa þessi orð eftir til að tryggja að þau komist í þingtíðindin þó að ég geri þau ekki að mínum. Þingmaðurinn sagði, með leyfi forseta: „Hættu þessum lygum, Jón Gunnarsson“ í þrígang. Hún kallaði þetta hátt og snjallt án þess að fá athugasemd frá virðulegum forseta þegar hún hafði lokið máli sínu. Ég vil leyfa mér að gera athugasemd við það vegna þess að þingmaðurinn var þar að auki á mælendaskrá og hafði tækifæri til þess að ræða þetta mál efnislega. Mér þótti þetta því mjög óviðkunnanlegt og ég geri athugasemd, frú forseti, við þessa fundarstjórn.