140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

fundarstjórn.

[14:23]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð síðasta ræðumanns en það er ekki erindi mitt í ræðustólinn undir liðnum um fundarstjórn forseta. Nú hef ég í tvígang spurt hvernig ég geti komið máli mínu á dagskrá þingsins sem snýr að því að þingsályktunartillaga verði tekin fyrir í þingsal hvort fara eigi með ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum. Ég hef ekki fengið neitt svar við því, frú forseti, og forseti er forseti allra þingmanna og skipuleggur dagskrá þingsins. Ég vil því fá ráðgjöf frá forseta þingsins um hvert ég eigi að snúa mér ef ekki er beint til sjálfs forseta. Er ég á einhverjum villigötum með þetta mál eða hvar get ég fengið upplýsingar um að málið komist á dagskrá eður ei? Nú ókyrrast þeir (Forseti hringir.) Evrópusinnar sem eru hér í salnum en ég vil fá svör frá forsetanum og engum öðrum.