140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

virðisaukaskattur.

490. mál
[14:37]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um lækkun virðisaukaskatts eða færslu tiltekinna vara, þ.e. þeim sem tengjast barnauppeldi, barnavörum, barnafötum, í hið lægra virðisaukaskattsþrep. Tillagan kemur fram í sérstöku þingskjali í kjölfar þess að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins lagði á haustdögum fram þingsályktunartillögu um aðgerðir í efnahagsmálum þar sem tekið var á hinum ýmsu sviðum efnahagsmála, m.a. á málefnum heimilanna. Í þeim kafla sem fjallaði sérstaklega um málefni heimilanna er að finna nokkrar tillögur í tilvitnaðri þingsályktunartillögu og er tillagan sem er hér komin fram í frumvarpsformi ein þeirra. Hún er svohljóðandi:

Við 2. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Barnaföt og nauðsynjavörur tengdar barnauppeldi.

Lagagreinin er sem sagt 14. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.

Um tilefni þessarar tillögu er það að segja í fyrsta lagi að á umliðnum missirum og árum hafa barnafjölskyldur í landinu þurft að glíma við sérstaklega erfiðar aðstæður. Kemur þar margt til, í fyrsta lagi gengisfall krónunnar og verðbólgan sem fylgdi því, í öðru lagi ástandið á vinnumarkaði, í þriðja lagi sú staðreynd að allt það sem tengist barnauppeldi er í efra virðisaukaskattsþrepinu sem var hækkað. Þetta hefur dregið það fram þegar staða heimilanna í landinu er könnuð sérstaklega að barnafjölskyldurnar í landinu koma einna verst út úr þeim efnahagsþrengingum sem við erum að glíma við í dag. (Gripið fram í.)

Í þessu samhengi er rétt að hafa í huga að ungt fólk sem er að ala upp börn er uppistaða þeirra sem hafa tiltölulega nýlega keypt sér fasteign, búið fjölskyldunni heimili og er fólkið sem hefur farið inn á fasteignamarkaðinn einmitt á þeim tímum þegar markaðurinn var í hæstu hæðum og upplifir nú bæði verðrýrnun húsnæðis og hækkun skulda sem tengjast kaupum á húsnæðinu. Þetta er sú kynslóð sem snemma skuldsetur sig og ætlar síðan að nota starfsævina alla til að greiða niður skuldirnar. Það er óumdeilt að þetta er sá hópur sem hefur komið sérstaklega illa út úr þeim breytingum sem hér hafa orðið frá árinu 2008 eftir fall bankanna.

Hugmyndin gengur í stuttu máli út á að færa barnaföt og nauðsynjavörur tengdar barnauppeldi í neðra virðisaukaskattsþrepið. Með þessari aðgerð er með mjög markvissum hætti hægt að auka ráðstöfunartekjur heimilanna, koma til móts við þann hóp sem ég hef hér verið að fjalla um og dregið fram að er í hvað þrengstri stöðu í þjóðfélaginu og bregðast þannig með einfaldri aðgerð hratt og ákveðið við þröngri stöðu barnafjölskyldna.

Eins og segir í greinargerð með frumvarpinu eyðir barnafólk stórum hluta ráðstöfunartekna sinna í að fæða og klæða börn sín. Barnaföt og aðrar nauðsynjavörur tengdar barnauppeldi, svo sem bleiur, barnamatur, kerrur og öryggisbúnaður, er tiltölulega dýr hér á landi í samanburði við mörg nágrannalönd. Það kemur meðal annars til af því að víða annars staðar er virðisaukaskattur mun lægri en hér á landi og sums staðar jafnvel enginn. Það á til dæmis við um barnaföt í Bretlandi.

Til hvers hefur þetta leitt? Jú, þetta hefur leitt til þess að verslun með þessar vörur hefur í talsverðum mæli flust úr landinu. Þannig hefur skattalegt umhverfi þessara mála á Íslandi orðið til þess að skaða stöðu íslenskrar verslunar og færa viðskipti úr landi.

Það er algjörlega ótvírætt að með þessari breytingu væri ekki einungis komið til móts við heimilin, barnafjölskyldurnar, heldur væri líka unnið að breytingum sem hefðu jákvæð áhrif á verslun í landinu.

Það vill svo til að frá því að hugmyndir Sjálfstæðisflokksins á haustmánuðum komu fram hafa Samtök verslunar og þjónustu látið gera sérstaka könnun um þessi efni. Niðurstaða þeirra samtaka hefur nýlega birst og er í stuttu máli á þann veg að verslun hafi færst úr landi í mun meira mæli en almennt hefur verið viðurkennt fram til þessa. Það er alvarlegt.

Við ættum að hafa eitt í huga í því samhengi og það er: Hverjir eru það sem hafa færi á því að sækja barnavörur og annað sem tengist barnauppeldi, barnaföt og annað þess háttar, til annarra landa? Eru það ekki helst fjölskyldurnar og heimilin sem hafa ívið betri ráðstöfunartekjur? Ætli það sé líklegt að þær barnafjölskyldur, einstæðir foreldrar og foreldrar á lágum launum, séu einkum sá hópur sem á færi á því að sækja þessar vörur til þeirra landa þar sem virðisaukaskatturinn er lægri eða enginn? Nei, ég tel augljóst að það er ekki sá hópur heldur væri með svona breytingu komið sérstaklega til móts við þann hóp. Þetta er því um leið mikið sanngirnismál og jafnréttismál vegna ólíkrar stöðu þessara hópa.

Við hljótum að stefna að því að hafa lagaumhverfið á Íslandi með þeim hætti að verslun í landinu verði ekki bara samkeppnisfær heldur verði álagningu á þætti eins og þá sem við erum að ræða stillt í hóf og sérstakt og ríkt tillit tekið til þeirra sem þar eiga hagsmuna að gæta, barna og barnafjölskyldna.

Ég vil láta þess getið að Sjálfstæðisflokkurinn er þeirrar skoðunar að heilt yfir eigi skattkerfið að vera sem einfaldast og sem fæstar undanþágur til staðar, að stefna eigi að því að hafa almenn skattþrep lág. Skynsamlegast væri fyrir okkur að vinna að því til lengri tíma að lækka virðisaukaskattsþrepið en heppilegast væri til einföldunar ef okkur auðnaðist að vera með eitt lágt virðisaukaskattsþrep. Hins vegar búum við við þær aðstæður í dag að það er óraunhæft að sameina virðisaukaskattsþrepin í eitt lágt þrep, það er of stórt skref að stíga við núverandi aðstæður. Af þeirri ástæðu meðal annars þykir rétt að nýta kerfið eins og það er, nota lægra skattþrepið og færa þessar vörur í það.

Þetta er einföld tillaga og markviss. Ég tel að sú breyting sem hér er mælt fyrir muni hafa takmörkuð áhrif á tekjur ríkissjóðs, m.a. með vísun til þess sem ég hef rakið, að verslunin muni þá færast heim og færast í vöxt innan lands, hér heima fyrir, og virðisaukaskatturinn skili sér þá í ríkiskassann en renni ekki út í formi erlendra viðskipta með þennan varning. Það eru auðvitað enn ein rökin fyrir því að málið sé sjálfsagt.

Af öllum þessum ástæðum vonast ég til að breið samstaða geti tekist um það á þingi að styðja þetta mikla baráttumál fyrir fjölskyldurnar í landinu. Þetta sjálfsagða skref sem þingið hlýtur að stíga í ljósi allra þeirra upplýsinga sem við höfum um stöðu heimilanna og þröngan kost, þröngar aðstæður barnmargra fjölskyldna og ungu kynslóðarinnar almennt í landinu sem er á sama tíma að glíma við sín fyrstu fasteignakaup og kostnaðinn við að ala upp börn.

Ég vonast til þess og mælist til þess að málið gangi í framhaldinu til efnahags- og viðskiptanefndar og fái þar skjóta meðferð vegna þess að hér eru ekki á ferðinni neinar flækjur sem kalla á langa meðferð í störfum þingsins.