140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

virðisaukaskattur.

490. mál
[14:49]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Ég lýsi yfir mikilli ánægju með þá tillögu sem komin er fram til þingsályktunar um lækkun virðisaukaskatts af barnafatnaði sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fram. Ég lagði fram fyrirspurn í gær til hæstv. fjármálaráðherra um hug hennar til hugmynda sem við framsóknarmenn og sjálfstæðismenn höfum sett fram um að lækka álögur á barnafólk með því að lækka virðisaukaskatt af barnafötum. Svörin voru því miður á þá leið að ekki kæmi til greina að slá af virðisaukaskattinn sem er í dag 25,5%. Við Íslendingar eigum þann vafasama heiður að skattlagning á barnaföt er hæst í heiminum hér á landi, við eigum sem sagt heimsmet í þeirri skattlagningu. Það er einfaldlega óásættanlegt í því árferði sem við búum við að hafa 25,5% virðisaukaskatt á þá nauðsynjavöru sem barnaföt eru.

Það kom mér á óvart í gær þegar hæstv. fjármálaráðherra nefndi að jafnvel væru uppi hugmyndir um að auka barnabætur, sem er vel, en ef við skoðum störf ríkisstjórnarinnar á síðustu þremur árum hafa barnabætur lægst launaða fólksins í samfélaginu skerst um 30%. Það eru verk hinnar norrænu velferðarstjórnar.

Á sama tíma horfa þessar sömu fjölskyldur á það að lán þeirra hafa stökkbreyst, hækkað um 40%, og þar með hefur greiðslubyrðin heldur betur þyngst. Á sama tíma erum við með hæsta virðisaukaskatt í heimi á barnaföt.

Þess vegna verðum við að breyta um stefnu. Það er ánægjulegt að heyra að þingflokkar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks telji að koma þurfi að frekar til móts við barnafjölskyldur í landinu vegna þess að við hljótum að vera sammála um að barnaföt eiga ekki að vera skilgreind sem einhver lúxusvara heldur sem nauðsynjavara. Þannig skilgreinum við til að mynda matvæli sem nauðsynjavöru, enda er virðisaukaskattur af matvælum hér á landi einungis í 7% flokknum. Á sama hátt eigum við að líta á barnaföt sem nauðsynjavöru en ekki einhvern munað eða lúxus sem fólk veitir börnum sínum á fyrstu árum ævinnar.

Það eru mér mikil vonbrigði að ríkisstjórnin skuli ekki sjá ljósið þegar kemur að þessari nálgun málsins.

Í annan stað höfum við heyrt að fólk hefur miklar áhyggjur út af vinnumarkaðnum hér á landi og af því hversu mikið störfum hefur fækkað. Við höfum mikið rætt um að margir hafi flutt úr landi á undangengnum árum. Það virðist ekki hafa vakið miklar áhyggjur hjá hæstv. forsætisráðherra, en á undangengnum tveimur árum hafa verið einir mestu búferlaflutningar Íslandssögunnar.

Þess vegna er það áhyggjuefni að yfir 40% af kaupum á barnafötum skuli fara fram á erlendri grundu en ekki hér innan lands vegna þess hversu mikið skattlögð þessi vara er. Hvað þýðir það? Það þýðir að störfum í verslun og þjónustu mun fækka. Ég hélt að við værum búin að átta okkur á að það er verulegt áhyggjuefni hér á landi. Að yfir 40% af barnavörum skuli vera keypt á erlendri grundu leiðir það líka af sér að við eyðum gjaldeyri sem er okkur mjög dýrmætur.

Ég lýsi yfir miklum áhyggjum vegna þess hversu illa var tekið í þessar hugmyndir af hálfu stjórnarliða á Alþingi í gær og reyndar einnig á undangengnum mánuðum og vikum. Það versta er að þegar kemur að umræðunni um þetta mál er einungis að horft á kostnaðarhliðina af þessum aðgerðum. Hvergi kom fram í svari hæstv. ráðherra eða hjá stjórnarliðum í gær hvaða ávinningur mundi fylgja því að ráðast í þessar aðgerðir. Ávinningurinn yrði til að mynda sá að ráðstöfunartekjur barnafjölskyldna mundu aukast. Þá ætti barnafólk hér á landi auðveldara með að standa í skilum með lán sín og þá mundi landið í heild sinni njóta góðs af því. Ávinningurinn væri líka sá að fólk flytti ekki í jafnmiklum mæli úr landi til að versla og þar með mundi störfum í verslun og þjónustu mögulega fjölga. Fólksflóttinn minnkaði kannski, einnig atvinnuleysi. Við mundum þá væntanlega greiða lægri upphæðir í atvinnuleysisbætur og fólk færi að borga skatt til ríkissjóðs.

En það kemur ekki til greina af hálfu ríkisstjórnarinnar að nálgast málið með þessum hætti, heldur talaði hæstv. fjármálaráðherra einungis í gær um hvað breytingarnar mundu kosta. En ávinningurinn er vissulega til staðar. Hafi einhvern tímann verið ástæða til að ráðast í breytingar til að koma til móts við barnafjölskyldur landsins sem eru skuldugar upp til hópa, er það nú. Á undangengnum þremur árum hafa barnabætur til að mynda þeirra sem hafa hvað lægstar tekjur lækkað um 30% þar sem skuldir þeirra heimila, verðtryggðar skuldir, hafa hækkað um 40%. Það er skrýtið að hér sé það ekki haft að markmiði að létta byrðar barnafólks í landinu, það er ekki góð nálgun að mínu viti og ríkisstjórnin hefur markað sér mjög slæma stefnu í þessum efnum.

Ef við horfum til markhópsins, hverjir eru það helst sem hafa nú á undanförnum árum verið að velta fyrir sér að flytjast til útlanda til að geta framfleytt sér og fjölskyldu sinni? Það er einmitt barnafólkið í landinu.

Mér finnst nauðsynlegt að Alþingi Íslendinga sendi þau skilaboð að við ætlum að búa til samfélag sem auðveldar ungu fólki að koma börnum sínum upp. Það á ekki að vera þannig og ég trúi því ekki að hv. þm. Mörður Árnason, sem ég fagna að sé kominn í þingsal, líti þannig á að barnavörur séu einhver lúxusvara. Barnaföt eru nauðsynjavara og þess vegna á virðisaukaskatturinn á þeirri vörutegund ekki að vera svona hár, 25,5%, sem er hæsta skattlagning í heimi á barnaföt.

Í ofanálag eru vörugjöld af innflutningi af þessum vörum þannig að tekjur ríkisins vegna innflutnings og sölu á barnafötum eru gríðarlega miklar eins og ég hef áður bent á.

Yfir 40% af verslun með barnaföt fer nú fram í útlöndum og samkvæmt þeim heimildum sem ég hef frá kaupmönnum átta þeir sig á því að fólk fer til útlanda jafnvel til þess eins að kaupa föt á börnin sín.

Ég tel því að öll rök hnígi að því að hið opinbera eigi að minnka álögur á barnafjölskyldurnar í landinu og þess vegna styð ég þá hugmynd sem fram kemur í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fram.

Ég vil minna á það að á 128. löggjafarþingi 2002–2003 kom fram þingsályktunartillaga um virðisaukaskatt af barnafatnaði sem þáverandi varaþingmaður Framsóknarflokksins, Páll Magnússon, flutti. Hún hljóðaði þannig, með leyfi herra forseta:

„Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að kanna hvort fella megi niður eða lækka virðisaukaskatt á fötum og skófatnaði fyrir börn. Annars vegar verði lagt til grundvallar að föt og skófatnaður fyrir börn beri engan virðisaukaskatt og hins vegar að föt og skófatnaður fyrir börn beri 14% virðisaukaskatt. Lagt verði mat á fjárhagslegt tap ríkissjóðs við þessar aðgerðir en einnig ávinning fyrir barnafjölskyldur. Einnig verði lagt mat á ávinning af slíkum aðgerðum fyrir verslun innan lands og í því efni sérstaklega litið til laga um þessi mál á Bretlandseyjum.“

Þetta mál hefur verið mikið til umræðu á undangengnum árum og hefur meðal annars ungt framsóknarfólk tekið málið upp í gegnum tíðina. Ég tel og vona að nú sé lag, sérstaklega í ljósi þróunarinnar á rekstrarumhverfi íslenskra heimila, ungra barnafjölskyldna, að senda við þau skilaboð að lækka skuli álögur á þeirri nauðsynjavöru sem barnaföt eru.

Ég vonast til þess, og væri áhugavert að heyra það frá hv. þm. Merði Árnasyni hvort hann muni styðja okkur í því, að það frumvarp sem við ræðum fái hraða afgreiðslu í efnahags- og viðskiptanefnd og verði sent til afgreiðslu í þinginu. Ég tel að það sé mál sem eigi skilið meiri virðingu en svo að það verði svæft í nefnd. Margar barnafjölskyldur horfa til þess að þær hugmyndir sem við framsóknarmenn og sjálfstæðismenn höfum lagt fram á undangengnum árum verði að veruleika. Það þekkja allir sem fara út í búð og kaupa barnaföt að gríðarlega háar fjárhæðir fara í þær grundvallarþarfir. Það væri því mjög áhugavert að heyra frá hv. þm. Merði Árnasyni hvort hann muni sem öflugur stjórnarþingmaður á Alþingi beita sér fyrir því að þetta mál fái afgreiðslu á Alþingi í endanlegri mynd, enda er hér um mikilvægt mál að ræða. Er hv. þingmaður ekki sammála þeirri hugsun út frá þingræðinu almennt að flest mál eigi að koma inn í sali Alþingis til efnislegrar meðhöndlunar og lúkningar þannig að menn samþykki annaðhvort slíkt frumvarp eða felli? Ég hugsa að það sé einn af þeim lærdómum sem við ættum að geta dregið af hruninu, að efla þingræði í þinginu, efla þingið á kostnað framkvæmdarvaldsins. Þess vegna væri áhugavert að heyra hugmyndir hv. þingmanns í þeim efnum.

Ég vil að lokum segja það, herra forseti, að hér er um mikilvægt mál að ræða. Nú er mál að linni. Það er tími til kominn að ríkisstjórnin hætti á þeirri braut að hækka álögur, skatta og gjöld á heimilin og atvinnulífið í landinu. Ég beindi fyrirspurn í gær til hæstv. fjármálaráðherra um þróun eldsneytisverðs og hvort til standi að lækka álögur á bensín og dísilolíu. Það kom nú ekki til greina þrátt fyrir að verð á dísilolíunni sé nú um 260 kr. og allt bendi til þess að það muni fara hækkandi á komandi mánuðum. Og vegna þess að bensín og dísilolía fara nú hækkandi munu þau lán, stökkbreyttu, verðtryggðu lán, sem ungar barnafjölskyldur tóku á sínum tíma, hækka. Þegar við innum hæstv. fjármála eftir svörum um hvort til greina komi að sveigja af þeirri leið og reyna að létta byrðar heimilanna og atvinnulífsins í landinu er svarið mjög stutt og einfalt: Nei, það kemur ekki til greina.

Við þurfum að ná fram breyttri stjórnarstefnu. Vonandi munum við heyra það frá hv. þm. Merði Árnasyni að hann hafi ágætan hug til þessa máls — svo ég gæti allrar sanngirni í þessu máli tók hann reyndar þátt í umræðu varðandi þá fyrirspurn sem ég beindi til fjármálaráðherra í gær og benti á að að hans mati mætti mögulega hækka barnabæturnar, en eins og ég hef bent á hafa þær lækkað um 30% gagnvart tekjulægstu fjölskyldunum. Ég held að það sé mikilvægt og um leið virðingarvert að stjórnarliði skuli koma í þessa umræðu og tjá hug sinn til málsins, frekar en að við sem skipum minni hlutann á Alþingi séum í eintali við okkur sjálf þegar kemur að jafnmikilvægum málum og því frumvarpi sem við ræðum hér. Það miðar að því að lækka álögur á barnafjölskyldur í landinu sem því miður hafa farið mjög illa fjárhagslega út úr hruninu og trúlega eru þær sá hópur sem farið hefur hvað verst út úr efnahagskreppunni í kjölfar hrunsins árið 2008. Ég vonast því til þess að frumvarpið verði samþykkt og að stjórnarliðar, samfylkingarmenn og vinstri grænir, muni nú sjá ljósið í þessum efnum.