140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

virðisaukaskattur.

490. mál
[15:06]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Þetta mál er einfalt að því leyti til, eða flókið eftir því hvernig menn vilja líta á það, að mér fannst skorta á það í nálgun hv. þm. Marðar Árnasonar hvað íslensk þjóð og ríkissjóður græði á því ef helmingurinn af yfir 40% af sölu af barnavörum sem fara fram erlendis, eins og er í dag, flyst heim. Þá yrðu einungis 20% af sölunni erlendis og umsvifin í innlendri verslun mundu aukast. Segjum sem svo að við værum með 7% virðisaukaskatt af barnavörum, þá mundu tekjur ríkisins aukast að sama skapi. Jafnframt mundi störfum fjölga vegna þess að það þyrfti að þjónusta barnafólkið í landinu sem væri að kaupa þessa nauðsynjavöru, ekki lúxusvöru, sem nú er um rætt. Þar af leiðandi mundi störfum líka fjölga. Það er eðlilegt að við spyrjum hv. þm. Mörð Árnason og stjórnarliða hvort það hafi ekki verið skoðað hvort þessar aðgerðir mundu ekki skila ríkissjóði heilmiklum tekjum og lækka líka greiðslubyrði barnafjölskyldna sem þá ættu auðveldara með að standa í skilum af stökkbreyttum lánum. Þetta er ávinningurinn af því að ráðast í þessar aðgerðir.

Að sama skapi mætti þá spyrja hv. þm. Mörð Árnason, fyrst hann telur eðlilegt að skattleggja barnaföt um 25,5% og að það hjálpi ríkissjóði svakalega mikið, hvort ekki væri réttast að leggja bara á viðbótarskatt, skattleggja barnafötin 40% eða 50%. Að sjálfsögðu ekki því að þá færi eiginlega öll verslun úr landi.

Við erum komin yfir ákveðin sársaukamörk í þessu. Við þurfum að snúa þessari stefnu við.