140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

virðisaukaskattur.

490. mál
[15:11]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Við erum að fjalla hér um mjög jákvætt mál, mál sem mun koma til móts við barnafjölskyldur í landinu. Svo getur menn greint á um það eins og okkur hv. þm. Mörð Árnason hvaða leið er réttust í því að koma til móts við þær.

Ég tek fram að hér er um að ræða mál sem annar flokkur en Framsóknarflokkurinn, sem ég tilheyri, leggur fram. (MÁ: Svaraðu spurningunum.) Ég kem inn í þessa umræðu til að fagna þessu innleggi til að skoða með hvaða hætti við getum komið til móts við skuldugar barnafjölskyldur í landinu. Við framsóknarmenn lentum akkúrat í þessu árið 2009 þegar við lögðum fram hugmyndina um 20% almenna leiðréttingu á stökkbreyttum lánum. Andstæðingar Framsóknarflokksins gátu ekki hugsað sér að sú leið yrði farin vegna þess að það var framsóknarleiðin. Menn þurfa að koma sér upp úr þessum hjólförum.

Ég hefði haldið að umræðan um þetta frumvarp yrði sveipuð jákvæðum ljóma vegna þess að þetta er jákvætt mál í eðli sínu. Það getur vel verið að við í efnahags- og viðskiptanefnd gætum mögulega fundið einhverja lausn á vandamálum skuldugra heimila sem væri jafnvel betri en þessi. En er ekki rétt að við fjöllum um málið með lausnamiðuðum hætti, skoðum hvaða möguleikar eru í stöðunni, hleypum málinu til nefndar og höfum aðkomuna að þessu máli með jákvæðum hætti en ekki neikvæðum? Ég hvet hv. þingmann til þess.

Hann nefndi að ég hefði ekki upplýsingar um hvað þetta kostaði en það kom reyndar fram hjá hæstv. fjármálaráðherra í gær. Ég ætla bara að játa það — (MÁ: Nauðsynjavörur. Barnaföt eru nauðsynjavörur.) (Gripið fram í.) Já, barnaföt eru nauðsynjavara að mínu viti en ekki lúxusvara. Ég náði því miður ekki öllum fjórum spurningum hv. þingmanns en ég vonast bara til þess að við getum átt hér ágæta og jákvæða umræðu um ánægjulegt mál á þessum fallega degi.