140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

virðisaukaskattur.

490. mál
[15:13]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða mjög einfalt mál. Það gengur út á að lækka virðisaukaskatt á barnavörur. Ég held að allir geti verið sammála um að stór hluti af verslun með þessar vörur er í öðrum löndum. Það er tiltölulega einfalt að kaupa þetta og taka með sér heim þegar fólk fer til annarra landa og það gerist vegna þess að það er mikill verðmunur.

Það sem vinnst með samþykkt þessarar tillögu er einfaldlega það að þetta mun færa verslun til landsins. Hverjir hagnast á því? Allir Íslendingar. Það þýðir að skatttekjur aukast þó að skattprósentan sé lægri. Það þýðir að fleiri geta unnið við þau störf hér og það minnkar útgjöld til Atvinnuleysistryggingasjóðs og hækkar skatttekjur. Stærsta einstaka málið er svo að þær barnafjölskyldur sem hafa ekki tækifæri til að fara til útlanda geta þá keypt barnavörur hér á hagstæðari kjörum.

Virðulegi forseti. Nú mun reyna á vilja þingsins er í þessu máli. Ég vek athygli á því, eins og kom fram hjá hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, að hér eru engin stjórnarþingmál. Þess vegna höfum við öll tækifæri til að fara málefnalega yfir þetta mál og klára það sem lög frá Alþingi í vor. Ég vonast til þess og trúi því að hv. þingmenn stjórnarliðsins muni styðja okkur í þessu.

Hér hefur ekki bara komið fram að málið er frá þingflokki sjálfstæðismanna og að 1. flutningsmaður er formaður flokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, heldur hefur sömuleiðis forustumaður Framsóknarflokksins í efnahags- og viðskiptanefnd, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, lýst yfir stuðningi við þetta mál þannig að það þarf ekki marga í viðbót. Það þarf nokkra stjórnarliða til að klára málið.

Virðulegi forseti. Ég bíð spenntur eftir að sjá það gerast og er þess sannfærður að sú verði niðurstaðan.