140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

493. mál
[15:25]
Horfa

Flm. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um rannsókn á einkavæðingu bankanna, þess efnis að skipuð verði þriggja manna rannsóknarnefnd sem fari yfir það ferli sem leiddi til sölu þriggja ríkisbanka, Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., á árunum 1998–2003.

Ég vil byrja á því að taka fram að þessi tillaga byggir að hluta til á þingsályktunartillögu sem Þórunn Sveinbjarnardóttir og 13 aðrir þingmenn Samfylkingarinnar lögðu fram á 139. löggjafarþingi haustið 2010. Sú tillaga náði ekki fram að ganga, sofnaði í nefnd eins og svo margar tillögur gera, en í millitíðinni höfum við samþykkt á þinginu lög um rannsóknarnefndir, nr. 68/2011, og er þessi nýja tillaga lögð fram innan þess ramma sem þau lög setja. Sú tillaga sem ég mæli fyrir er að auki víðtækari þar sem hún tekur einnig til einkavæðingar Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og aukið hefur verið við þær rannsóknarspurningar sem lagt er til að rannsóknarnefndin leiti svar við í sinni vinnu. Í þriðja lagi er þessi tillaga borin fram af breiðari hópi þingmanna, 18 þingmönnum úr röðum þriggja flokka auk óháðs þingmanns, og hefur því víðtækari stuðning sem vonandi skilar sér í því að hún fái betri framgang í þinginu.

Ég tel mikilvægt að við fáum í eitt skipti fyrir öll alla söguna fram um það sem gerðist við einkavæðingu þessara þriggja banka til að við getum dregið rétta lærdóma af því ferli fyrir framtíðina.

Ýmislegt hefur verið ritað og rætt um einkavæðingu bankanna á undanförnum árum. Ríkisendurskoðun gaf út skýrslu um sölu ríkisfyrirtækja á árunum 1998–2003 þar sem sala Landsbankans og Búnaðarbankans var reifuð. Tvö stærstu dagblöð landsins, Fréttablaðið og Morgunblaðið, birtu ítarlega greinarflokka um málið á sínum tíma og ritaðar hafa verið fræðigreinar um einkavæðinguna. Nýjasta dæmið er grein í desemberhefti tímaritsins Sögu þar sem Björn Jón Birgisson fjallar um einkavæðingu Búnaðarbankans.

Síðast en ekki síst er kafli um einkavæðingu bankanna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir hruns fjármálakerfisins. Þar er varpað ljósi á ýmislegt í einkavæðingarferlinu sem orkaði tvímælis að mati höfunda. Sérstaklega var þó tekið fram og ítrekað í fyrsta bindi skýrslunnar, nánar tiltekið á bls. 228, að ekki væri um að ræða neina heildarúttekt á einkavæðingu bankanna heldur skoðun á afmörkuðum þáttum eða nánar tiltekið eins og þar segir, með leyfi forseta:

„… ákveðnum atriðum sem snerta undirbúning og töku ákvarðana um sölu á eignarhlutum í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., einkum á síðari hluta árs 2002.“

Ekki er gerð sams konar úttekt á einkavæðingarferli Fjárfestingarbanka atvinnulífsins í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og ýmsar mikilvægar spurningar sitja eftir við lestur skýrslunnar eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni.

Virðulegi forseti. Þær ályktanir sem draga má af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og áður birtum gögnum um einkavæðingu bankanna eru í fyrsta lagi að mjög hafi skort á vandaða stefnumótun af hendi stjórnvalda, þar með talið löggjafans, um markmið og viðmið varðandi framkvæmd einkavæðingarinnar.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir, með leyfi forseta:

„… að stjórnvöld hafi frá og með áliðnu sumri 2002 í vaxandi mæli látið pólitísk markmið um að ljúka einkavæðingu bankanna sem slíkri hafa forgang gagnvart þeim faglegu markmiðum sem áður höfðu verið sett fram og gengið hafði verið út frá í söluferlinu fram að þeim tíma.“

Í öðru lagi er sú ályktun augljós af lestri skýrslunnar að einkavæðingarferlið hafi verið ófaglegt og handahófskennt þar sem áður kynntum forsendum var vikið til hliðar til að þjóna pólitískum markmiðum. Ný viðmið voru sett varðandi val á kaupendum og látin ráða önnur heldur en þau sem kynnt höfðu verið til sögunnar fyrir fram. Mikilvægir áhrifaþættir, svo sem að erlendur fjárfestir skyldi eiga aðild að kaupendahópnum og að það teldist kaupendum sérstaklega til tekna ef kaupverð væri greitt með erlendum gjaldeyri, voru greinilega þung á metunum í ákvarðanatökuferlinu síðustu metrana í þessu ferli. Þær forsendur voru notaðar sem eftiráskýringar á vali viðkomandi aðila en voru ekki kynntar fyrir fram sem forsendur.

Enn má nefna að vikið var frá viðmiðum framkvæmdanefndar um einkavæðingu um dreift eignarhald, skilningi og mati á kjölfestufjárfestum sem ættu að hafa reynslu og þekkingu af fjármálaþjónustu var vikið til hliðar og sömuleiðis um mikilvægi erlendra þátttakenda í kaupendahópnum.

Ýmislegt er þó óljóst og órannsakað um einkavæðingarferlið og málsatvik í því ferli, hlutverk erlendra ráðgjafa og fjárfesta í ferlinu, ábyrgð einstaklinga, ráðherra og annarra sem báru hita og þunga af þeirri atburðarás sem endaði með sölu bankanna og er það reifað í á fjórða tug rannsóknarspurninga sem birtar eru í greinargerð með tillögunni.

Rannsóknin er nánar afmörkuð í tillögunni með þeim hætti sem ég vil nú fara yfir nokkrum orðum.

Í þingsályktunartillögunni er lagt til að skipuð verði rannsóknarnefnd sem taki meðal annars til umfjöllunar þá stefnu og þau viðmið sem lágu til grundvallar einkavæðingu bankanna og að hve miklu leyti þeim var fylgt í ákvarðanatöku og framkvæmd einkavæðingarinnar. Nefndin upplýsi nánar um undirbúning og framkvæmd á sölu eignarhluta ríkisins í umræddum bönkum í því skyni að skýra ábyrgð ráðherra og annarra sem komu að sölunni. Nefndin fjalli jafnframt um samningagerðina við kaupendur bankanna, mat á eignum bankanna og að hve miklu leyti það samrýmdist söluverði þeirra, efndir samninga og undanþágur frá ákvæðum þeirra, þar með talið afslætti frá kaupverði. Þá verði fjallað um eftirlit og ábyrgð með framfylgd kaupsamninganna.

Eitt meginmarkmið rannsóknar af þessu tagi hlýtur að vera að læra af reynslunni, bæði okkar eigin og annarra. Því leggjum við flutningsmenn tillögunnar til að gerður verði samanburður á einkavæðingu íslensku bankanna og fjármálafyrirtækja í nágrannalöndunum. Hvernig hafa aðrar vestrænar þjóðir staðið að sölu fjármálafyrirtækja? Hvað má af þeim læra og af mistökunum sem hér voru gerð þegar og ef kemur að sölu á eignarhlutum ríkisins í viðskiptabönkum í framtíðinni?

Það er ekki síst í ljósi þessa sem mikilvægt er að tillagan nái fram að ganga og það á þessu vorþingi því að fyrir liggja áform um að losa um þessa eignarhluti innan tíðar og er afar brýnt að þá liggi fyrir skýr leiðsögn löggjafans um þá leið sem farin verður við þá sölu.

Einmitt í þessu efni, varðandi leiðsögn löggjafans og stjórnvalda yfir höfuð, er óhætt að segja að sporin hræði svo um muni. Óhætt er að segja að leitun sé að jafnfátæklegri leiðsögn frá þjóðþinginu í svo afdrifaríku máli og þeirri leiðsögn sem gefin var um einkavæðingu bankanna. Er þar að finna átakanlegt dæmi um þá niðurlægingu sem Alþingi mátti þola af hendi framkvæmdarvaldsins síðasta áratuginn fyrir hrun.

Meiri hluti Alþingis lagði ekkert til málanna um markmið, forsendur, aðferðafræði eða verklagsreglur varðandi einkavæðingu bankanna. Lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar sem heimilaði söluna á Landsbankanum, lög nr. 50/1997, innihélt aðeins eitt efnisákvæði sem orðaðist svo, með leyfi forseta:

„Heimilt er að selja hlutafé ríkissjóðs í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf.“

Punktur, basta, málið dautt. Ekki orð um hvaða markmiðum einkavæðingunni væri ætlað að ná, hvort stefna ætti að dreifðu eignarhaldi eða ekki, hvort selja ætti bankana saman eða hvorn í sínu lagi, hvort stefna ætti að sölu til kjölfestufjárfesta og ef svo væri, af hverju? — hvort stefnt væri að innlendu eða erlendu eignarhaldi o.s.frv.

Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar á þessum tíma lagði engar breytingartillögur fram, lagði til að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt og afsalaði sér í reynd öllu hlutverki í stefnumótun og ákvarðanatöku í þessu afdrifaríka máli. Þingið veitti þannig galopna heimild til framkvæmdarvaldsins varðandi tilhögun einkavæðingarinnar.

Það er óneitanlega þyngra en tárum taki að rifja upp þessa sögu nú í ljósi þess sem síðar gerðist, en þetta hefur örugglega verið hversdagsleg afgreiðsla mála á þessum tíma. Þingið sat einfaldlega og stóð eins og ríkisstjórnarmeirihlutanum hentaði hverju sinni, það var ekki til siðs að skoða stjórnarfrumvörp með gagnrýnum gleraugum.

Virðulegi forseti. Tilgangur þessarar þingsályktunartillögu er að leiða fram sannleikann varðandi einkavæðingu bankanna í eitt skipti fyrir öll, tryggja að sagan öll verði sögð og almenningi aðgengileg á einum stað um alla framtíð. Efnislegt markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á atburðarásina við sölu bankanna þriggja svo ljóst sé hvar í stjórnkerfinu, hvenær og hvers vegna veigamiklar ákvarðanir í því ferli voru teknar og hverjir báru á þeim ábyrgð. Aðeins þannig má draga réttan lærdóm af þessu umdeilda söluferli og byggja á þeim lærdómi við setningu laga og reglna um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum síðar meir.

Markmiðið er ekki að draga einstaklinga til refsiábyrgðar eins og því miður hefur verið mest áberandi í umræðunni um þau mál sem leiddu til bankahrunsins. Það er rétt að árétta að fyrrverandi ráðherrar á umræddu tímabili, 1998–2003, verða ekki dregnir til ábyrgðar á grundvelli laga um ráðherraábyrgð fyrir þátt sinn í einkavæðingu bankanna því að öll hugsanleg brot á þeim lögum fyrnast á þremur árum sem kunnugt er. Hins vegar er mjög mikilvægt að fara vel yfir aðkomu og ábyrgð og framgöngu ráðherra og annarra sem höfðu mest um það að segja hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna til að við höfum sem réttasta mynd af stefnumótun og ákvarðanatöku í því ferli.

Virðulegi forseti. Í greinargerð tillögunnar er svo sem fyrr segir birtur langur listi yfir rannsóknarspurningar sem flutningsmenn leggja til að rannsóknarnefndin leiti svara við í vinnu sinni. Þetta er á fjórða tug spurninga sem lúta að einkavæðingarferlinu sem slíku, ábyrgð og aðkomu einstakra ráðherra, atriðum sem tengjast sölu hvers banka fyrir sig, samningagerð og eftirliti með framfylgd samninganna um kaup bankanna, auk spurninga sem tengjast alþjóðlegum samanburði, ábendingum um hvernig megi standa betur að sölu ríkisfyrirtækja í framtíðinni o.s.frv.

Ég vísa í greinargerðina að öðru leyti varðandi einstakar spurningar, en legg bara áherslu á að tíminn skiptir máli. Ég tel afar brýnt að tillagan fái skjótan og góðan framgang í þinginu, ekki síst í ljósi þess sem áður var sagt um fyrirhugaða sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum í náinni framtíð. Í því ljósi er lagt til að rannsóknarnefndin skili forseta Alþingis skýrslu um rannsóknina eigi síðar en 1. janúar 2013 ásamt þeim samantektum og úttektum sem nefndin ákveður að vinna í þágu þessarar rannsóknar. Í dag er 28. febrúar og er því mikilvægt að tillagan fái skjóta og góða meðferð í viðeigandi nefnd sem væntanlega verður stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins.