140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

493. mál
[15:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu.

Ég er hlynntur svona rannsókn þótt þjóðin megi auðvitað ekki sökkva sér þvílíkt í rannsóknir að hún gleymi framtíðinni. Það er ágætt að rannsaka fortíðina og læra af henni, en við þurfum líka að horfa til framtíðar.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort ekki sé ástæða til að skoða hlut sparisjóðanna jafnframt þessari rannsókn. Nú hafa menn í huga að rannsaka sparisjóðina, jafnvel langt aftur í tímann. Þeir voru vissulega gerendur í þessu ferli einkavæðingar. Mér sýnist fléttast saman rannsókn á stöðu sparisjóðanna og einkavæðing bankanna. Sparisjóðirnir voru til dæmis virkir í einkavæðingu Búnaðarbankans.

Síðan vil ég spyrja hvort ekki sé ástæða til að skoða einkavæðinguna hina síðari í sömu rannsókn því að þar var leiðsögninni, markmiðinu og stefnumótuninni ekkert síður ábótavant en í hinni fyrri. Menn vita ekki einu sinni hverjir keyptu og vita það ekki enn, menn vita ekki hvort það var vogunarsjóður. Menn vita yfirleitt ekki nokkurn skapaðan hlut um eigendur nýju bankanna tveggja sem ríkið er búið að selja.

Ég held að það væri ágætt að fá um það leiðsögn og að sú nefnd sem fær þetta til skoðunar víkkaði verkefnið út til sparisjóðanna og síðari einkavæðingarinnar. Þá væri gott að hafa þetta til hliðsjónar þegar síðasti bankinn verður einkavæddur, Landsbankinn. Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé ekki hjartanlega sammála þessu.