140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

493. mál
[15:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi fyrri spurninguna um sparisjóðina er rétt að það er hafin rannsókn, en það er spurning að breyta þessari tillögu þannig að ákveðið samstarf verði milli þeirra sem rannsaka sparisjóðina og hinna sem rannsaka einkavæðingu bankanna því að þetta er mjög samtengt. Ég minni bara á þegar sparisjóðirnir keyptu Búnaðarbankann o.s.frv. Það er mjög margt sem tengist þarna á milli.

Varðandi það hvort bankarnir hafi verið einkavæddir þá voru stofnaðir einkabankar af minnir mig Fjármálaeftirlitinu, alla vega af opinberum aðilum. Hið opinbera startaði því sem sagt að setja þessa banka í gang. Það voru ekki einkaaðilar, það voru heldur ekki kröfuhafarnir, heldur var það Fjármálaeftirlitið, eða ég held að það hafi stofnað bankana, þ.e. opinber aðili, og þeir voru síðan afhentir kröfuhöfum upp í kröfur þeirra. Það er því einkavæðing.

Ríkið hefði getað lagt peninga í þessa banka sjálft og átt þessa banka, en þá hefðum við væntanlega lent í áratugamálaferlum við kröfuhafana um hvað afskriftasjóðurinn ætti að vera þykkur. Það er kannski þess vegna sem ég lagði það til á þeim tíma að bankarnir yrðu settir undir gömlu bankana til að losna við þau áratugamálaferli.

Ég er ánægður að heyra að hv. þingmaður sé til í að sú nefnd sem fær þetta til skoðunar bæti við hinni nýju einkavæðingu.

Ég vil fá að heyra hjá honum hvort hann telji að rannsóknin á sparisjóðunum ætti að tengjast þessari eða hvort mjög náið samstarf ætti að vera á milli þeirra sem eru annars vegar að rannsaka sparisjóðina og hins vegar þeirra sem rannsaka einkavæðingu bankanna.