140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

493. mál
[16:31]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nefndi það aldrei í andsvari mínu eða ræðu að það hefði verið hreinn meiri hluti sjálfstæðismanna sem réði þarna för, guði sé lof fyrir það. Ég tók það ítrekað fram í ræðu minni að tveir stjórnarflokkar, þ.e. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, hefðu haft það á stefnuskrá sinni, það var pólitísk stefna þeirra flokka að einkavæða bankana. Það má bæði finna það í stefnum flokkanna sjálfra og í málefnasáttmálum þeirrar ríkisstjórna sem þessir flokkar mynduðu frá 1995–2003 að það var pólitísk yfirlýsing, það var pólitísk stefna, það var lífssýn þeirra sem leiddu þá flokka að selja ætti bankana. Þeirri sýn var kannski ekki alveg fylgt til enda því að þegar á hólminn var komið var farið að skippa þessu upp í baklandinu, þjappa saman hópum til að kaupa. Í ágætri rannsóknarskýrslu Alþingis kom síðar í ljós að flest þessara fyrirtækja eða mörg þeirra að minnsta kosti voru einkavædd af þessum tveim flokkum. Leiðir þessara fyrirtækja og þessara stjórnmálaflokka og margra stjórnmálamanna innan þeirra vébanda áttu síðan að liggja saman allt til hrunsins með ýmsum hætti.

Auðvitað eigum við að læra af fortíðinni, þó það nú væri. Eigum við ekki að reyna að læra eitthvað aðeins af fortíðinni um hvernig í ósköpunum það gat gerst á sínum tíma að við einkavæddum með þeim hætti sem gert var, með bönkunum, með fyrirtækjunum, með Símanum, með Síldarvinnslunni o.s.frv. og fengum þetta síðan allt í hausinn? Þessi tillaga snýst um það og um það eigum við að fjalla og ekki að skilyrða það eins og mér finnst stjórnarandstæðingar gera hér, því að þeir komu ekki hingað til að ræða málið. Þeir komu ekki upp í ræðustól, hvorki í ræðu né andsvör, til að ræða málið sjálft heldur um eitthvað annað. Það finnst mér athyglisvert.