140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

493. mál
[16:33]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. Í samræmi við lög um rannsóknarnefndir ályktar Alþingi að skipa eigi þriggja manna rannsóknarnefnd er rannsaka skuli einkavæðingu á sölu hlutabréfa í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. og tengd málefni á árunum 1998–2003.

Einkavæðingin var mjög umdeild á sínum tíma og þingflokkur Vinstri grænna lagðist alfarið gegn einkavæðingunni á þeim tíma og taldi að ríkið ætti í það minnsta að vera meirihlutaeigandi í einum banka. Trúlega hefði margt farið öðruvísi hefðu menn borið gæfu til að hlusta á þau varnaðarorð sem vinstri græn höfðu þá uppi. Eitt af því sem rannsókn af þessu tagi á að svara er hvaða afleiðingar þessi stærsta einkavæðing Íslandssögunnar hafði á íslenskt samfélag og á þá atburðarás sem hrundið var af stað og leiddi til þess að bankahrunið varð óbætanlegt og hafði miklar afleiðingar og skaða fyrir íslenska þjóð.

Ég tel rétt að rifja upp í stuttu máli forsögu einkavæðingar þessara banka og hvaða flokkar og stjórnmálamenn héldu þá um stjórnartaumana. Það er okkur nauðsynlegt að horfa á alla hluti í samhengi nú þegar við tökumst á við sársaukafullar afleiðingar hrunsins.

Árið 1995 höfðu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur það á stefnuskrá sinni að hlutafélagavæða ríkisbankana. Það var undanfari einkavæðingarinnar. Lög um hlutafélagavæðingu Landsbanka Íslands og Búnaðarbankans tóku gildi árið 1998. Árið 2001 samþykkti Alþingi lög um að sölu bankanna mundi ljúka árið 2003. Formenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins á þessum árum, þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, stýrðu þeirri einkavæðingu ríkisbankanna sem síðan fór í gang í framhaldinu árið 2002. Selja átti Landsbankann og Búnaðarbankann almenningi og tryggja átti dreifða eignaraðild, en raunin varð önnur og ákveðið var að selja ríkisbankana til eins kjölfestufjárfestis. Í framhaldinu hófst atburðarás sem er dæmi um þá helmingaskiptareglu sem viðgekkst víða í þjóðfélaginu á þeim tíma, og gerir eflaust enn, milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og náði djúpt inn í viðskiptalífið.

Ráðherranefndin sem fór með sölu ríkisbankanna var skipuð þeim Davíð Oddssyni, Geir H. Haarde, Halldóri Ásgrímssyni, Finni Ingólfssyni og Valgerði Sverrisdóttur. Framkvæmdanefnd sem skipuð var um sölu bankanna skipuðu þeir Ólafur Davíðsson, Hreinn Loftsson, Steingrímur Ari Arason, Jón Sveinsson og Baldur Guðlaugsson, þáverandi ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins.

Ég tel líka rétt að nefna þá viðskiptahópa sem komu að kaupunum og tilboðum en þeir voru S-hópurinn, Kaldbakur og Samson ásamt nokkrum öðrum bjóðendum.

Ég tel líka rétt að rifja aðeins upp í þessu sambandi atburði í tímaröð. Í október 2001 hefst söluferlið með því að völdum erlendum bönkum eru send bréf þar sem Landsbankinn er kynntur sem fjárfestingartækifæri og í desemberlok 2001 tilkynnir framkvæmdanefnd um einkavæðingu að sala á kjölfestuhlut í Landsbankanum til erlends fjárfestis muni ekki ganga eftir. Í janúarlok 2002 segir Hreinn Loftsson sig úr einkavæðingarnefndinni og við tekur Ólafur Davíðsson. Í júnílok 2002 berst bréf frá Björgólfi Guðmundssyni, Björgólfi Thor Björgólfssyni og Magnúsi Þorsteinssyni um að þeir hafi áhuga á að kaupa Landsbankann eða Búnaðarbankann.

Í júlí 2002 auglýsir framkvæmdanefnd um einkavæðingu báða bankana til sölu og í júlílok 2002 senda fimm hópar inn tilkynningu um áhuga sinn á bönkunum. Það eru Samson, Kaldbakur, S-hópurinn, Íslandsbanki og Þórður Magnússon fyrir hönd fjárfesta. Þeir eru kallaðir á fund framkvæmdanefndar. Í ágúst 2002 voru þrír hópar valdir til viðræðna: Samson, Kaldbakur og S-hópurinn. Í september segir Steingrímur Ari Arason sig úr framkvæmdanefndinni og segist aldrei hafa upplifað önnur eins vinnubrögð.

Í október 2002 undirrita Samson og framkvæmdanefnd samkomulag um sölu ríkisins á hlut þess í Landsbankanum. Í október 2002 sendir framkvæmdanefndin Kaldbaki og S-hóp bréf þar sem söluferli Búnaðarbankans er skýrt. Í nóvember sama ár ákveður framkvæmdanefndin að ganga til samninga við S-hópinn um söluna á Búnaðarbankanum. Og í sama nóvembermánuði undirrita S-hópurinn og framkvæmdanefnd samkomulag um sölu ríkisins á hlut sínum í Búnaðarbankanum. Í lok desember árið 2002 undirrita Samson og framkvæmdanefndin kaupsamning um hlut ríkisins í Landsbankanum. 16. janúar 2003 undirrita S-hópurinn og framkvæmdanefndin kaupsamning um hlut ríkisins í Búnaðarbankanum.

Í maí árið 2003 sameinast Búnaðarbankinn Kaupþingi og til verður KB banki.

Ég tel okkur sem þjóð hollt að rifja þessa atburðarás upp því að allt of oft fennir í sporin. Ég tel að þessi þingsályktunartillaga sé mjög nauðsynleg svo læra megi af þeirri dýrkeyptu reynslu sem einkavæðingin var og þjóðin hefur vissulega sopið seyðið af. Það þarf að koma fram hverjir voru gerendur og beri stærstu ábyrgð á öllu þessu söluferli ríkisbankanna sem var í umboði Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins og á ábyrgð þeirra á þeim tíma.

Hverjir bera ábyrgð? Hvað í stjórnkerfinu brást? Hver var aðkoma og ábyrgð hvers ráðherra fyrir sig á þessum árum? Við þessum spurningum þurfum við að fá svör, m.a. með þeirri rannsókn sem hér er lagt til að fari fram.