140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

493. mál
[16:42]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en mig langar að þakka flutningsmönnum, sérstaklega Skúla Helgasyni þingmanni, sem er búinn að leggja mikla vinnu í þessa tillögu og eins Þórunni Sveinbjarnardóttur sem var þingmaður og flutti málið á fyrra þingi. Einkavæðing bankanna er mál sem hefur haft í för með sér hroðalegar afleiðingar sem við erum á hverjum einasta degi að eiga við, og ekki bara við í þinginu heldur allir Íslendingar. Þetta hafa verið efnahagsleg móðuharðindi og við verðum að skoða þessi mál og læra af þeim.

Hér hafa margir sagt að hlutirnir hafi ekkert batnað og það þurfi líka að skoða einkavæðingu banka og ríkisstyrki við banka eftir hrun. Ég get tekið undir það en það þýðir ekki að sú einkavæðing sem hér um ræðir sé í lagi, þvert á móti. Við skipuðum rannsóknarnefnd Alþingis sem skilaði af sér mjög vandaðri skýrslu. Umboð þeirrar nefndar var mjög afmarkað og náði í raun ekki til víðtækrar rannsóknar á einkavæðingu bankanna og alls ekki til Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Ég tel mjög mikilvægt að rannsóknin fari fram. Sú vinna sem var unnin af rannsóknarnefnd Alþingis hefur kennt okkur hvað það er dýrmætt fyrir okkur sem þjóð að kafa ofan í þessi mál svo við skiljum þau í raun og veru.