140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

334. mál
[16:53]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Herra forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessa máls sem fjallar um breytingar á starfskjörum launafólks og er þá fyrst og fremst átt við að setja þak á hámarkslaun forsvarsmanna verkalýðsfélaga og hagsmunasamtaka launafólks þannig að þau nemi ekki meiru en þreföldum lágmarkskjörum.

Það er ýmislegt gott við frumvarp af þessu tagi þó að vissulega sé verið að setja ákveðnar skorður við samningsfrelsi. Það er gert, að því er okkur finnst, að gefnu tilefni. Eins og launþegahreyfingin blasir við okkur og fjölda annarra í dag eru uppi efasemdir um að hún gæti hagsmuna félagsmanna sinna nægilega vel. Við höfum hér forsvarsmenn fyrir stórum samtökum verkalýðsfélaga sem hafa tekið ákvarðanir í kjölfar hrunsins á vettvangi nefnda sem þeir hafa verið valdir í vegna þeirrar stöðu sem þeir gegna í launþegahreyfingunni. Þær ákvarðanir hafa verið á þann veg að kjör heimila landsins hafa versnað til mikilla muna og sennilega meira en nokkru sinni í lýðveldissögunni. Þar á ég við ákvörðun nefndar sem formaður ASÍ var í og veitti forstöðu, að því er ég best veit, um það hvort taka ætti verðtryggingarákvæði úr sambandi í kjölfar gengisfalls krónunnar til að verja heimilin áfalli. Það var ákvörðun þeirrar nefndar að gera það ekki.

Nú í dag, þremur árum síðar, stöndum við frammi fyrir nánast óleysanlegu vandamáli í þeim efnum, vegna þessarar ákvörðunar. Maður verður að fara að velta því alvarlega fyrir sér hvers vegna menn taka svona ákvarðanir. Hver er ábyrgð formanna stéttarfélaga og hvernig er hægt að fá þá til að sæta ábyrgð?

Sjálfur var ég í trúnaðarráði í stéttarfélagi í um átta ár og þekki vel fyrirkomulag stéttarfélaga sem er eins enn þann dag í dag hjá þeim langflestum. Fyrirkomulagið er oft kallað lenínskt fyrirkomulag og segir það kannski allt sem þarf. Það byggir á því að þar er stjórn sem er kjörin. Þegar kemur að kosningum og ársfundi stillir sú stjórn sjálf upp einhverju sem hún kallar uppstillingarnefnd sem stillir svo upp þeim sem æskilegt er að verði kosnir í næstu stjórn. Áhrif einstakra félagsmanna stéttarfélaga á stjórnir þeirra eru í raun mjög lítil og mjög útþynnt og það er mjög erfitt fyrir einstaka félagsmenn að hafa áhrif á og skipta sér af starfsemi stéttarfélaga sinna.

Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að myndast hefur mikil fjarlægð milli formanna stéttarfélaga og einstakra félagsmanna og þeir virðast hafa fjarlægst markmið stéttarfélagsins að hluta til vegna þess að þeir eru alls ekki á kjörum sem eru sambærileg eða taka mið af kjörum þeirra sem þeir eru að semja fyrir. Þetta finnst okkur varhugaverð þróun. Hluti af þessu snýst að sjálfsögðu um að hægt væri að fara út í tilraunir til að auka lýðræði í stéttarfélögum. Það hefur sums staðar verið gert og eru sum stéttarfélög með annars konar fyrirkomulag. En þegar kemur að þessum stóru samtökum launþega virðist sem það kerfi sé orðið illilega niðurnjörvað í einhver för sem mjög erfitt er að breyta og mjög erfitt er fyrir einstaka félagsmenn að hafa áhrif á.

Þetta finnst okkur mjög slæmt og þó að ég hafi sjálfur ekki farið af stað og skoðað kaup og kjör forsvarsmanna launþega í dag miðað við ársreikninga þeirra félaga búum við líka við þá staðreynd að fyrrverandi formaður Alþýðusambands Íslands er nú auðmaður sem býr í nærri 500 fermetra einbýlishúsi á dýrasta stað á landinu. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því en þær þurfa þá að liggja skýrt frammi — menn eignast ekki svona auðæfi á skömmum tíma, það gerist á talsvert löngum tíma. Menn verða einfaldlega að gera mjög rækilega grein fyrir kjörum sínum og með einhverjum hætti þarf að taka á því að þau verði ekki af einhverju allt öðru kalíberi en þess fólks sem þeir eru að semja fyrir.

Á mínum tíma sem trúnaðarmaður í stéttarfélagi varð ég ekki var við spillingu í verkalýðshreyfingunni eins og menn hafa oft talað um. Ég held að íslensk verkalýðshreyfing hafi að mestu leyti verið laus við það, miðað við það sem maður hefur frétt af í mörgum öðrum löndum. Slík spilling er hrikalegt fyrirbæri, alls kyns samtök hafa náð tökum á verkalýðshreyfingum og forsvarsmenn þeirra hafa jafnvel keyrt undir fölsku flaggi í langan tíma. Við búum sem betur fer ekki við þannig fyrirkomulag og gerum vonandi aldrei; og ég held að við höfum aldrei gert það.

Halda verður því til haga að stéttarfélög eru gríðarlega mikilvæg fyrir launafólk. Við verðum að passa upp á að ekki verði of langt bil á milli félagsmanna í stéttarfélögum, almennra launþega, og forsvarsmanna þeirra svo að sambandið rofni ekki. Frumvarpið er tilraun til að hnykkja á því að slíkt gerist ekki. Þó að um einhvers konar inngrip í samningsfrelsi sé að ræða er það við þessar aðstæður, að okkur finnst, einfaldlega eðlileg leið til að viðhalda mjög mikilvægu kerfi sem að öðrum kosti mundi valda miklu meira tjóni ef það færi úr böndunum.