140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

heilbrigðisþjónusta í heimabyggð.

120. mál
[17:42]
Horfa

Flm. (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þær góðu umræður sem hafa verið um þessa tillögu og vil bara rétt í lokin ítreka mikilvægi þess að hún fái góða umfjöllun í nefndum þingsins. Það er mjög mikilvægt og við höfum horft upp á það síðustu ár að mjög lítið samráð hefur verið við heimamenn um grundvallarbreytingar á heilbrigðisþjónustunni. Það gengur ekki að kerfisbreytingar í heilbrigðisþjónustunni á landsbyggðinni séu unnar af starfsmönnum í velferðarráðuneytinu án nokkurs samráðs við heimamenn, við sveitarfélög, við starfsfólk og þá sem nýta sér þjónustuna allt í kringum landið. Það hefur sýnt sig, og núna í fjárlagagerð ársins 2012 sáum við aftur sömu vinnubrögðin og voru árið 2011. Það er mjög mikilvægt að á nýjan leik verði teknar upp stjórnir heilbrigðisstofnana þar sem heimamenn, sveitarstjórnarmenn, hollvinasamtök, íbúar og starfsfólk eigi aðkomu að stjórnum og skipulagi heilbrigðisstofnana sinna.

Ég þakka að lokum fyrir þá góðu umræðu sem varð um þetta mál. Það hefur komið fram stuðningur við hana frá þingmönnum held ég úr öllum flokkum þannig að ég á von á því að hún fái hér skjóta og jákvæða meðferð í nefndum þingsins.